Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sprengingar í miðborg Mogadishu

23.12.2018 - 00:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Á annan tug lét lífið og fjöldi særðist í tveimur sprengjuárásum í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, í dag. Hryðjuverkasamtökin al-Shabab segjast bera ábyrgð á árásinni.

Fyrri sprengjan var bílsprengja sem sprakk við eftirlitsstöð nærri þjóðleikhúsi Sómala. Nokkrum mínútum síðar sprakk önnur sprengja þar nærri. Nokkrir hermenn létust í árásinni, auk fjölmiðlamanna, að sögn lögreglustjórans Mohamed Hussein. Al Jazeera hefur eftir lögreglumanninum Ahmed Abdi að fyrri sprengjan hafi sprungið um 400 metrum frá heimili forseta landsins. Lögreglan segir stjórnmálamenn og aðra embættismenn hafa verið á ferli á svæðinu þegar sprengjurnar sprungu.

Al-Shabab hefur gert fjölda árása í Sómalíu og nágrannaríkjum. Samtökin, sem eru systursamtök Al-Kaída, berjast gegn stjórnvöldum og reyna að steypa þeim af stóli. Hryðjuverkasamtökin réðu ríkjum í mest öllu landinu fram til ársins 2010, þegar stjórnarherinn naut aðstoðar Bandaríkjahers og friðargæslusveitar Afríkuríkja í baráttunni gegn þeim.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV