Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sprenging í bakaríi í París

12.01.2019 - 09:02
Erlent · París
Mynd:  / 
Tólf eru alvarlega slasaðir, þar af fimm í lífshættu, og 24 til viðbótar með minni háttar meiðsl, eftir öfluga sprengingu í bakaríi í miðborg Parísar. Sprengingin varð um klukkan átta í morgun að íslenskum tíma og var hún það öflug að eldur kviknaði og gluggar sprungu í nærliggjandi húsum. Grunur er um að gasleki hafi valdið sprenginunni. Breska útvarpið BBC segir að ekki hafi verið búið að opna bakaríið þegar sprengingin varð.

Bílar nærri bakaríinu hafi gjöreyðilagst og skemmdir orðið á nálægum byggingum við götuna, Rue de Trévise, í níunda hverfi borgarinnar.

AFP segir að ljósmyndari á þeirra vegum hafi séð sjúkraflutningamenn flytja að minnsta kosti eina manneskju út úr húsinu á börum. FJöldi slasaðra var á reiki í morgun og bar fjölmiðlum ekki saman. Nú hefur verið staðfest að tólf séu alvarlega slasaðir, þar af fimm í lífshættu, og 24 hlutu minniháttar meiðsli. Þrír slökkviliðsmenn eru á meðal þeirra sem slösuðust. 

Mikill viðbúnaður er í París vegna mótmæla gulvestunga sem hafa komið þar saman á hverjum laugardegi frá því í nóvember. 80 þúsund lögreglumenn eru á vakt vegna þess í dag en sprengingin í morgun er ekki talin tengjast mótmælunum. 

 

 

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 12:09  með staðfestum fjölda slasaðra. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd með færslu
 Mynd:
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV