Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sprenging í ábendingum um illa meðferð

11.09.2015 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: flickr.com
Fjöldi ábendinga um illa meðferð á dýrum hefur meira en tífaldast á tveimur árum. Flestar sneru að hundum, hrossum og köttum, en nær engar að svínum, alifuglum og loðdýrum. Matvælastofnun gerði alvarlegar athugasemdir við dýravelferð á næstum 50 bæjum í matvælaframleiðslu fyrra.

Úr innan við 50 í yfir 500 á ári
Með nýjum lögum um velferð dýra, sem tóku gildi í ársbyrjun 2014, er fólki skylt að tilkynna Matvælastofnun um grun um illa meðferð á dýrum. Sektir eða fangelsi liggja við því að vanrækja þessa tilkynningarskyldu. Ábendingum hefur snarfjölgað á síðustu árum. Árið 2012 bárust 49 ábendingar um illa meðferð, 2013 fjölgaði þeim í 376. Í fyrra voru þær svo 534, eða rúmlega tíu á viku. Á tveimur árum ellefufaldaðist því næstum fjöldi ábendinga.

Almenningi auðveldað að senda ábendingar
Matvælastofnun rekur þessa miklu aukningu til bættrar skráningar ábendinga og að almenningi hafi verið gert auðveldara fyrir að tilkynna grun um illa meðferð á dýrum. Sérstakur hnappur var settur á vef Matvælastofnunar þar sem almenningur getur sent ábendingar undir nafni eða nafnlaust.

Mjög mikill munur eftir dýrategundum
Meira en 80% ábendinganna er um illa meðferð á þeim tegundum sem almenningur er í einna mestri nálægð við. Þar af voru rúmlega 43% um illa meðferð á hundum, tæplega 28% á hrossum og tæplega 11% á köttum. Langfæstar ábendingar, um eða innan við 1%, voru um illa meðferð á alifuglum, svínum og loðdýrum.

Hátt í 50 bæir fengu alvarlegar athugasemdir
Matvælastofnun gerði alvarlegar athugasemdir við dýravelferð á 47 bæjum í matvælaframleiðslu. Flestar voru vegna aðbúnaðar, fóðrunar og heilbrigðis nautgripa. Alvarlegar athugasemdir voru gerðar við aðbúnað og fóðrun sauðfjár á 14 bæjum og hrossa á níu bæjum. Á sumum búum voru gerðar athugasemdir við meðferð fleiri en einnar dýrategundar. Þá voru gerðar alvarlegar athugasemdir við aðbúnað varphænsna á einu búi og aðbúnað og fóðrun svína á einu.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV