Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Sprenging í ábendingum um illa meðferð

18.05.2014 - 20:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Sprenging hefur orðið í ábendingum um illa meðferð á dýrum hér á landi á síðustu misserum. Allt árið 2012 bárust um 50 ábendingar um illa meðferð á dýrum en það sem af er þessu ári hafa borist um 50 ábendingar í hverjum mánuði.

Samkvæmt nýjum lögum um velferð dýra ber þeim sem verða varir við að dýr sé sjúkt, sært, bjargarlaust eða að aðbúnaður sé ekki fullnægjandi, að tilkynna það til umráðamanna eða lögreglu.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir telur að rekja megi fjölgunina til meiri umfjöllunar um dýravelferð í fjölmiðlum. Einnig til nýju dýravelferðarlaganna, sem voru samþykkt í fyrra og tóku gildi um áramót, auk þess sem auðveldara sé orðið fyrir fólk að koma ábendingum á framfæri. Hún segir að raunveruleg ill meðferð á dýrum hafi þó ekki færst í aukana.

Á vefsíðu Matvælastofnunar hefur verið settur upp sérstakur ábendingarhnappur þar sem almenningur getur sent inn ábendingar undir nafni eða nafnlaust.

Sigurborg segir að öllum ábendingum um illa meðferð sé fylgt eftir og kannað hvort þær eigi við rök að styðjast. Hún segir að raunverulegum tilfellum um illa meðferð hafi ekki fjölgað. Mismunandi sé eftir dýrategundum hversu hátt hlutfall ábendinga eigi við rök að styðjast. Sumar ábendingar vegna gæludýra snúist um nágrannaerjur en ábendingar um búfénað bendi mun oftar til raunverulegrar illrar meðferðar.

[email protected]