Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sprauta sig 10 til 15 sinnum á dag

28.08.2014 - 21:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Talið er að fjögur til fimm hundruð Íslendingar séu virkir sprautufíklar. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sprautar sig með rítalíni eða skyldu lyfi, concerta.

Spurningar voru lagðar fyrir ríflega hundrað sprautufíkla sem voru í afeitrun.

Aðspurð að því hversu oft rítalínfíklar sprauta sig svara Guðrún Dóra Bjarnadóttir, deildarlæknir á geðdeild Landspítalans: „Langalgengasta svarið sem maður fær er: Eins oft og ég get. Þannig að ef þeir eiga 10 pakka af rítalíni þá nota þeir þann skammt yfir daginn. En svona meðaltölur voru að nota þetta tíu til fimmtán sinnum á dag. Þeir þurfa alltaf meira og meira magn þannig að þeir eru að nota fleiri töflur, og fleiri töflur kosta. Þannig að dagneyslan getur kostað, slagað upp í 100.000 kallinn.“

Guðrún Dóra segir að það færist í vöxt að ungt fólk sprauti sig með rítalíni. „Í gamla daga þá voru fíklarnir að byrja að sprauta sig með amfetamíni en þeir sem eru með sögu um sprautunotkun í tíu ár eða minna þeir eru að sprauta sig í meira mæli með rítalíni."

En hvers vegna taka fíklarnir rítalín fram yfir önnur fíkniefni? „Það er auðvelt að verka þetta og þeir vita hvað þeir eru að nota og þeir vita skammtinn sem þeir eru að nota og svo finnst þeim þetta betra en önnur örvandi efni á borð við amfetamín og kókaín."

Guðrún veit ekki hvers vegna fólk hér á landi sprauti sig með rítalíni en ekki fíklar í öðrum löndum. Skýringanna virðist ekki að leita í því að læknar séu of viljugir til að ávísa rítalíni til fíkla. „Það eru afskaplega fáir sprautufíklar sem eru að fá þetta beint frá læknum heldur virðist vera að þeir séu að fá þetta frá þriðja aðila, þannig að þeir séu að fá þetta frá einstaklingum sem fái þetta uppáskrifað frá læknum og kaupi þetta þá af þeim.“