Spotify innleiddi nýja stefnu í byrjun maí um „hatursefni og hatursfulla hegðun“. Samkvæmt henni vildi tónlistarveitan ekki gera tónlistarmönnum hátt undir höfði sem með framferði sínu brytu í bága við gildi fyrirtækisins. Í stefnunni sagði að yfirlýst markmið Spotify væri að standa fyrir „víðsýni, fjölbreytni, umburðarlyndi og virðingu.“
Tónlist þekktra tónlistarmanna, R. Kelly og XXXTentacion sem báðir hafa verið sakaðir um misnotkun og ofbeldi, var við það tilefni fjarlægð af ritstýrðum lagalistum Spotify. „Við ritskoðum ekki efni vegna hegðunar listamannsins, en við viljum að ritstjórnarlegar ákvarðanir okkar – það sem við veljum á dagskrá – endurspegli gildi okkar,“ sagði talsmaður Spotify í viðtali við BBC.