Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Spilltir hryðjuverkamenn!

05.08.2014 - 19:30
Members of Kurdish security forces, known as Peshmerga, stand near armored vehicles as they patrol the Jihadist-controlled Bashir region, 25 kms south of the northern Iraqi city of Kirkuk, on June 20, 2014, following their deployment in the area to stop
 Mynd:
Mynd:  / 
Hryðjuverkasamtök haga sér í auknum mæli eins og fyrirtæki og nýta sér spillta embættismenn og sérfræðinga, segir höfundur nýrrar bókar um þetta efni við Spegilinn. Mannrán á Vesturlandabúum eru nú stór gróðavegur fyrir Al-Kaída hryðjuverkanetið.

Hryðjuverkasamtök afla sífellt hærri fjárhæða með mannránum þar sem ríkistjórnir Vestur-Evrópulanda greiða með leynd lausnargjald fyrir þegna sína. Baráttuna gegn þessari ógn verður að heyja á mörgum vígstöðvum, segir Louise Shelley, höfundur nýrrar bókar um samspil spillingar, glæpa og hryðjuverka. Sveinn Helgason í Washington talaði við Shelley sem segir að hryðjuverkasamtök hagi sér í auknum mæli eins og fyrirtæki.

Hryðjuverkasamtök leita eftir sérfræðingum sem kunna sitt fag á ýmsum sviðum og grípa þau tækifæri sem gefast, einkum þegar saman fer lítil áhætta og mikill hagnaður, segir Louises Shelley, prófessor við George Mason háskólann í Virginíu. Hún var að senda frá sér bókina Dirty Entanglements sem er afrakstur fimmtán ára rannsóknarvinnu en Shelly hefur meðal annars komið til Íslands þar sem hún hélt fyrirlestur um mansal.

Hryðjuverka- og öfgasamtök moka inn peningum á mannránum vegna þess að vestrænar ríkistjórnir greiða stórfé í lausnargjald og sömuleiðis tryggingafélag þegar í hlut eiga fyrirtæki sem vilja frelsa starfsmenn sína, segir Louise Shelley. Lönd á borð við Þýskaland, Frakkland, Sviss og fleiri hafa borgað og féð hefur verið flutt með leynd í hendur mannræningjanna.  Opinberlega hafa stjórnvöld í þessum löndum neitað að þau hafi látið undan kröfum hryðjuverkamanna en New York Times greinir til dæmis frá því að í ríkisbókhaldinu heiti þessar greiðslur stundum mannúðaraðstoð. Vestrænum ríkisborgurum hefur verið rænt í Alsír, Malí og víðar. Ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Bretlands hafa neitað að greiða lausnargjald - það þýðir að færri þegnum þessara ríkja er rænt vegna þess að gróðavonin er minni hjá mannræningjunum. Á móti hafa hryðjuverkasamtök líflátið Breta og Bandaríkjamenn vegna þess að kröfum þeirra hefur ekki verið mætt. Louise Shelley segir það skiljanlegt að sum Evrópuríki leysi þegna sína úr prísundinni en þau bjóði líka hættunni heim.

Al-Kaída í Norður-Afríku hefur þannig aflað yfir eitt hundrað milljóna Bandaríkjadala með mannránum til að standa straum af stórum hluta af kostnaði við starfsemi samtakanna, segir Louise Shelley.

Mannránin hafa líka beinst að þegnum landa í viðkomandi heimshlutum, svo sem þegar Boko Haram hryðjuverkasamtökin í Nígeriu rændu nærri þrjú hundruð stúlkum í vor. Louise Shelley segir að slíkir glæpir snúist líka um að veikja mótstöðuafl einstakra samfélaga.

Í bók sinni bendir Shelley á að Osama bin Laden velti mjög fyrir sér hvernig einstakir hlutar Al-Kaída hryðjuverkanetsins gætu stundað mannrán með hámarks árangri. Þarna hugsaði Osama bin Laden eins og athafnamaður - ekki hryðjuverkamaður - enda kom hann úr fjölskyldu sem lagt hefur stund á viðskipti, segir Louse Shelley. Hún segir líka nauðsynlegt að taka á því hvernig hryðjuverkasamtök nýta sér spilltar stofnanir og einstaklinga í starfsemi sinni. Það þarf að elta uppi spillta embættismenn, lögfræðinga, endurskoðendur og aðrir sem gera hryðjuverkasamtökum kleift að haga sér eins og fyrirtæki, segir Louise Shelley.