Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Spilavíti í skjóli áhugamannafélags

Mynd með færslu
 Mynd:
Fjórir menn á fertugsaldri sem í gær voru handteknir í viðamiklum aðgerðum lögreglu vegna gruns um ólöglegt spilavíti í Reykjavík voru í dag úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Spilavítið er rekið í spilaklúbbi sem þykir með þeim fínni í Reykjavík.

Húsleit var gerð í spilavítinu og á heimilum þriggja manna sem eru taldir koma að rekstri þess.

P&P eða Poker and play áhugamannafélag er skráð og rekið í húsi við Skeifuna í Reykjavík. Lögreglan telur ólöglegt spilavíti vera rekið undir yfirskini áhugamannafélagsins og réðst því til atlögu seint í gærkvöld þar sem um þrjátíu lögreglumenn tóku þátt í aðgerðum. Lítill hópur manna sat við spil þegar lögreglu bar að. Þegar inn í húsið er komið er lítið sem að minnir á spilavíti eða pókerklúbb. En þar er þó greinilegt að ýmislegt hefur gengið á. Stálstyrking á hurð brotnaði þegar lögreglumenn brutu hana upp í gærkvöld.

Gestum á staðnum var sleppt en átta menn sem eru taldir tengjast rekstri spilavítis voru handteknir. Fjórum þeirra var sleppt að loknum yfirheyrslum. Lögreglan lagði hald á ýmsan búnað sem tengist fjárhættuspilum.

Samhliða aðgerðunum í Skeifunni var húsleit gerð hjá þremur mönnum sem sitja í stjórn félagsins og eru taldir koma að rekstri spilavítis.

Í fyrirtækjaskrá segir að félagið stundi ekki atvinnurekstur. Tilgangur þess er að halda skemmti- og spilakvöld fyrir félagsmenn. Í samþykktum félagsins segir að allir hafi rétt til inngöngu í félagið sem hafi náð átján ára aldri.

Samkvæmt nokkrum heimildamönnum fréttastofu þykir spilaklúbburinn með þeim fínni í Reykjavík og er víst nokkuð vinsæll meðal pókerspilara. Þá er einnig hægt að spila fleira en póker, til dæmis Black Jack og Rúllettuspil en það er víst fátítt að spilaklúbbar hér á landi bjóði upp á slíkt.

Samkvæmt hegningarlögum er ólöglegt að hafa fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu. Skal hver sá sem aflar sér tekna með því að nota húsnæði sitt til fjárhættuspils eða veðmála sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.