Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Spennt og sátt með nýjan kjarasamning

04.04.2014 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segist vera spennt og sátt með nýjan kjarasamning. Hann sé óvenjulegur og spennand tímar séu framundan. Tæplega þriggja vikna verkfalli kennara lauk í dag og hefst kennsla í framhaldsskólum strax á mánudag.

Skrifað var undir kjarasamning við framhaldsskólakennara korter yfir fjögur í dag. Að því loknu var að sjálfsögðu hrært í vöfflur og þær bornar fram með rjóma eins og hefð er fyrir.

Guðríði Arnardóttur, formanni félags framhaldsskólakennara, líst vel á samninginn - hún segir spennandi tíma framundan og nú verði farið á fullt að kynna samninginn og niðurstöðurnar af þeirri kynningu ættu að ljósar fyrir 23.apríl.

Guðríður segir að samningurinn sé merkilegur og ný vegferð sé að hefjast hjá framhaldsskólakennurum. Vinnufyrirkomulag kennara mun breytast, og það metið með allt öðrum hætti  - í stað fastra tíma á bakvið hvern áfanga þurfi að meta hvern áfanga fyrir sig, t.a.m eftir fjölda nemenda og umfangi áfangans.

Guðríður segir að kosið verði sérstaklega um þetta breytta vinnufyrirkomulag í febrúar á næsta ári. Verði nýja vinnufyrirkomulagið ekki samþykkt fellur samningurinn sem skrifað var undir í dag úr gildi. Guðríður segir þó að þau telji sig hafa komist býsna vel áleiðis við að leiðrétta laun framhaldsskólakennara en kennarar kröfðust sautján prósent launaleiðréttingar.

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, sagði að ef allt gengi eftir gæti samningurinn leitt til 29 prósent hækkkunar á launum framhaldsskólakennara.