Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Spenna hjá Framsókn í Norðausturkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tvöfalt kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fer fram í Mývatnssveit í dag. Þá ræðst hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður heldur oddvitasæti sínu, en fjórir hafa gefið kost á sér til að leiða listann: Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Höskuldur Þórhallsson og Sigmundur Davíð, en óvenjulegt er að þingmenn bjóði sig fram gegn sitjandi formanni.

370 Framsóknarmenn hafa kosningarétt á þinginu. Hver frambjóðandi verður að fá meira en fimmtíu prósent atkvæða í það sæti sem hann býður sig fram í og því verður kosið aftur á milli tveggja efstu ef ekki næst meirihluti í fyrstu atrennu. 

Mikil spenna er fyrir kjördæmisþinginu. Birgir Guðmundsson, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, sagði til að mynda á Morgunvaktinni á Rás 1 fyrir skemmstu að kjördæmisþingið gæti reynst ögurstund fyrir bæði Sigmund Davíð og Höskuld Þórhallsson.  „Í þessum kosningum á kjördæmisþinginu að þá held ég að þetta sé sko eiginlega „live or let die“ fyrir bæði Höskuld og Sigmund Davíð. Því að ef Sigmundur Davíð nær ekki fyrsta sætinu hér í kjördæminu þá er hann eiginlega bara úr leik.“

Mynd: RÚV / RÚV

 

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarmanna á Fljótsdalshéraði, lýsti yfir stuðningi við Þórunni Egilsdóttur á Facebook-síðu sinni í gær - Stefán segir að með hana í forystusæti í kjördæminu kvíði hann sannarlega ekki kosningunum í haust.

Fram kemur í úttekt Morgunblaðsins í morgun að Sigmundi Davíð sé spáð sigri í dag.  Þar kemur einnig fram að ekki sé búist við mikilli þátttöku og að milli 200 og 250 fulltrúar muni mæta.

Þá lýsti Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, yfir fullum stuðningi við Sigmund í viðtali við Fréttablaðið í gær  - þar benti hann á að fylgi Framsóknarflokksins hefði farið niður í sex til sjö prósent þegar Sigmundur steig til hliðar en hefði farið aftur upp þegar hann sneri aftur.
 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV