Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Spegilbrot af höfundarverki Sigurðar Pálssonar

Mynd: Rithöfundasamband ÍslandsS / Rithöfundasamband Íslands

Spegilbrot af höfundarverki Sigurðar Pálssonar

06.11.2017 - 12:12

Höfundar

Á dögunum kom út ljóðbréf helgað minningu Sigurðar Pálssonar skálds. Bréfið hefur að geyma úrval úr höfundarverki Sigurðar, tekið saman af Degi Hjartarsyni og Ragnari Helga Ólafssyni.

Dagur Hjartarson og Ragnar Helgi Ólafsson reka bókaforlagið Tunglið sem hefur sérhæft sig í nýstárlegum ljóðaútgáfum. Forlagið gefur út ljóðbréf sem borin eru út á fullu tungli tvisvar sinnum á ári til kostunarmanna. „Þetta eru bréf í sömu stærð og hefðbundinn gluggapóstur, en innihalda ívið skemmtilegra efni,“ segir Dagur.

Sigurður Pálsson skáld, sem andaðist í september, var meðlimur ritstjórnar Tunglsins og kennari Ragnars og Dags.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

„Við vorum byrjaðir á vinnu við ljóðbréf númer tvö þegar Sigurður fellur frá. Þá ákveðum við að helga ljóðbréfið ljóðum Sigurðar Pálssonar,“ segir Dagur.

Kristín Jóhannesdóttir ekkja Sigurðar veitti þeim góðfúslegt leyfi og Dagur og Ragnar sökktu sér í höfundarverk hans, allar sextán bækurnar, á þremur dögum, sem er reynsla sem Dagur mælir með að flestir upplifi. „Við völdum úr fjörutíu og tvö ljóð sem mynda lítið spegilbrot af höfundarverki þessa mikla skálds.“ 

Egill Helgason ræddi við Dag Hjartarson í Kiljunni um ljóðbréf Tunglsins.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Tunglið lenti í basli í Basel

Bókmenntir

Tunglið sendir ljóð í pósti

Bókmenntir

Tunglið kallar á skáldskap