Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Sparisjóður Norðfjarðar er til sölu

19.08.2011 - 11:47
Ákveðið hefur verið að auglýsa stofnfé í Sparisjóði Norðfjarðar til sölu. Ákvörðunin var tekin á stofnfjáreigendafundi sem haldinn var í Neskaupstað í gær. Stjórnarformaður sjóðsins segir sameiningu við aðra sparisjóði ekki koma til greina.

Til fundarins var boðað fyrir nokkrum vikum en þá lagði stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar til að stofnfé sjóðsins yrði auglýst til sölu. Voru þeir stofnfjáreigendur sem mættu til fundarins í gærkvöldi sammála um að það bæri að auglýsa hlutinn.

Jón Einar Marteinsson, stjórnarformaður sjóðsins, segir það hafa verið erfiða ákvöðrun að leggja það til að loka sparisjóði sem hefur verið sparfræktur í kaupstaðnum í yfir 90 ár.  Hins vegar sé staðan í dag þannig að ekki sé hægt að reka sparisjóðakerfi í þeirri mynd sem verið hefur síðustu ár.  Því telji stjórnin vænlegasta kostinn að fara þessa leið.

Jón Einar vísar með þessum orðum meðal annars til þess þegar Landsbankinn yfirtók Sparisjóður Keflavíkur. Þá hafi komið í ljós að ekki væri hægt að reka svona lítinn sjóð áfram, nema með því að sameinast öðrum sparisjóðum. Vangaveltur um slíkt hafa verið á kreiki og  Sparisjóður Vestmannaeyja nefndur í því sambandi. Jón Einar telur sameiningu við aðra sparisjóði ekki koma til greina lengur.

Sá kostur hafi verið skoðaður en eftir að mönnum varð ljóst að gamla sparisjóðakerfið yrði ekki endurreist í þeirri mynd sem verið hefur, þá hafi menn komist að þeirri niðurstöðu að það væri skynsamlegt að fara þá leið.

Vænlegra sé fyrir stofnfjáreigendur, starfsfólk og samfélagið að sparisjóðurinn sé seldur. Þá sjá menn fyrir sér að hann gangi inn í rekstur stærra fjármálafyrirtækis.

Sparisjóður Norðfjarðar á eignir sem nema 5,2 milljörðum. Eigið fé hans er 591 milljón króna. Ríkið á tæplega 50% hlut í honum sem það eignaðist þegar sjóðurinn var endurfjármagnaður í fyrra í kjölfar hrunsins. Talið er að söluferlið taki tvo mánuði.

Jón Einar telur að stóru bankarnir, í það minnsta einhverjir þeirra, sýni kaupunum áhuga.