Spara vart með uppsögn samnings

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bryndís Haraldsdóttir, stjórnarformaður Strætós, efast um að Hafnarfjarðarbær spari með því að rifta samningi um ferðaþjónustu fatlaðra. Sveitarfélagið geti lækkað útgjöld sín í ferðaþjónustunni með öðrum hætti.

Fjölskylduráð Hafnarfjarðarbæjar ræddi í gær kostnað við ferðaþjónustu fatlaðra eftir að Strætó tók við þjónustunni um áramót. Kostnaður er þrefalt meiri en ráð var fyrir gert og nú vilja Hafnfirðingar kanna möguleika á að rifta samningnum vegna forsendubrests.

„Samningurinn í rauninni gengur út á það að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ætli að vinna að þessu saman. Það er nú kannski eðlilegra þá að Hafnfirðingar tali við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og beri þessa spurningu upp þar,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, stjórnarformaður Strætós. Hún segir að Hafnfirðingar geti eflaust gert eitthvað sín megin til að lækka útgjöld sín, það gæti þó falið í sér minni þjónustu við fatlaða. Hún segir stöðugt unnið að því að hagræða í kerfinu.

Bryndís efast um að Hafnarfjarðarbær geti boðið þjónustuna með hagstæðari hætti en nú er. „Engu að síður var þessi akstur boðinn út og sveitarfélögin tóku sig saman í því. Það er ákveðin útboðslýsing sem öll sveitarfélögin samþykktu. Þannig að það er erfitt að ímynda sér að það sé einhver annar sem er núna tilbúinn til að veita sömu þjónustu fyrir lægra verð en það sem kom upp úr umslögunum á sínum tíma, þegar Strætó bauð þetta út fyrir um ári síðan.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi