Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir 3,1% hagvexti á næsta ári. Í nýrri þjóðhagsspá greiningar Íslandsbanka, sem kynnt var í dag, er gert ráð fyrir að hagvöxtur nemi ekki nema 2,2% á komandi ári og minnki enn frekar árið 2013.
Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningar Íslandsbanka, segir mikla skuldsetningu heimila, fyrirtækja og hins opinbera og litla virkni fjármálamarkaða sömuleiðis hamla frekari hagvexti, sem og vaxandi langtímaatvinnuleysi.
Hann segir mikilvægt að afnema gjaldeyrishöftin, þar sem þau vinni gegn hagvexti, en gerir ekki ráð fyrir að þau verði afnumin í bráð vegna stöðu erlendra markaða.