Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Spáir áfram hækkun fasteignaverðs

20.01.2016 - 09:55
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,4% milli mánaða í desember. Íbúðir í fjölbýli hækkuðu um 1,7%, umtalsvert meira en í sérbýli sem hækkuðu um 0,3%. Í Hagsjá Landsbankans er tekið til þess að raunverð fasteigna hafi hækkað umtalsvert því verðbólga hafi verið lítil á árinu.

Í heild hefur fasteignaverð hækkað um 9,4% frá fyrr ári, í fjölbýli um 10% og í sérbýli um 7,6%. Þetta voru mestu verðhækkanir milli ára frá því árið 2007 segir hagfræðideildin. Fasteignaverð á Akureyri hækkaði töluvert meira en á höfuðborgarsvæðinu en þróunin var svipuð í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum. Í Árborg lækkaði verðið og í Reykjanesbæ hækkaði það um 2,6%. Hagfræðideildin spáir því að fasteignaverð haldi áfram að hækka og bendir á þróun kaupmáttar, tekna og atvinnustigs ýti undir hækkun. Þá sé eftirspurn umfram framboð og er því búist við 8% hækkun fasteignaverð næstu árin.

annakj's picture
Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV