Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Spænskur togari sökk undan ströndum Argentínu

11.07.2018 - 23:56
Skuttogarinn Dorneda sökk um 308 sjómílum undan ströndum Patagóníu í Argentínu. Flotinn fann mennina við dögun þar sem þá rak um Atlantshafið á tveimur flekum og litlum báti.
 Mynd: Freiremar
Einn er látinn og annars er saknað eftir að spænskur togari sökk undan ströndum Argentínu í dag. Argentínska flotanum tókst að bjarga 25 skipverjum sem voru í áhöfn togarans.

Skuttogarinn Dorneda sökk um 308 sjómílum undan ströndum Patagóníu í Argentínu. Flotinn fann mennina við dögun þar sem þá rak um Atlantshafið á tveimur flekum og litlum báti.

Flestir áhafnarmeðlimir voru spænskir en einnig voru Marokkóar, Perúbúar og Indónesar um borð, að sögn Enrique Balbi talsmanns argentínska flotans.

Verið er að sigla í land með mennina og lík eins skipverjans á tveimur skipum argentínska flotans, annars vegar til Puerto Madryn í Argentínu og hins vegar til Montevideo, höfuðborgar Úrúgvæ.

Talið er að Dorneda hafi sokkið eftir að togaranum hvolfdi þegar hann tók á sig mikið vatn í aftakaveðri. Vatn komst í vélarrými skipsins sem gerði það að verkum að vélar hans stöðvuðust. Skipverjarnir sáu sér þann kost vænstan að yfirgefa skipið.

Neyðarkall frá skipverjunum barst til spænskra yfirvalda sem gerðu argentínska flotanum viðvart. Balbi segir að skipið hafi verið við veiðar í alþjóðlegri lögsögu en það er í eigu spænska útgerðarfyrirtækisins Freiremar. Tvær flugvélar hafa verið sendar til leitar af skipverjanum sem enn er saknað.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV