Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Spænskir hægrimenn kröfðust kosninga

10.02.2019 - 17:34
Erlent · Spánn · Evrópa · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd:
Tugþúsundir spænskra hægrimanna söfnuðust saman í Madríd í dag, mótmæltu hugmyndum stjórnvalda um viðræður við aðskilnaðarsinna í Katalóníu og kröfðust þess að efnt yrði til þingkosninga sem allra fyrst.

Borgaraflokkurinn Ciudadanos, Lýðflokkurinn, Vox, flokkur hægriþjóðernissinna, og nokkrir smáflokkar af hægrivængnum boðuðu til mótmælaaðgerðanna í miðborg Madrídar. Skipuleggjendurnir telja að um tvö hundruð þúsund manns hafi tekið þátt í þeim. Lögreglan er ögn hófsamari: áætlar að 45 þúsund hafi svarað kallinu.

Fólk kom til fundarins víða að. Það veifaði spænskum fánum og mótmæltu hugmyndum Pedros Sanchez forsætisráðherra um viðræður við aðskilnaðarsinna í Katalóníu í von um að slaka á spennunni milli þeirra og Spánverja sem vilja óbreytt samband við héraðið. Margir mótmælenda töldu að hugmyndir forsætisráðherrans jafngiltu landráðum. Þá kröfðust fundarmenn þess að efnt yrði til þingkosninga sem fyrst.

Réttarhöld hefjast á þriðjudaginn kemur yfir tólf leiðtogum aðskilnaðarsinna. Þeir þurfa að svara til saka fyrir þátt sinn í að héraðsstjórnin í Katalóníu lýsti yfir sjálfstæði haustið 2017. Verði þeir sakfelldir eiga þeir yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsi. Hin fyrirhuguðu réttarhöld hafa vakið mikla athygli. Búist er við yfir 600 fréttamönnum hvaðanæva að úr heiminum til að fylgjast með þeim.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV