Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Spænski boltinn að hruni kominn

Mynd með færslu
 Mynd:

Spænski boltinn að hruni kominn

18.04.2013 - 19:30
Í undanúrslitum meistaradeildarinnar í knattspyrnu eru fjögur lið - tvö spænsk og tvö þýsk. Spegillinn hefur fjallað um uppganginn í þýskri knattspyrnu en óðveðursskýinn hrannast upp í spænska boltanum.

Á undanförnum árum hefur spænski fótboltinn verið litinn öfundaraugum. Real Madrid og Barcelona hafa borið höfuð og herðar yfir önnur lið. Bestu leikmenn heims hafa farið til Spánar, þar hafa hæstu launin verið greidd og gæði boltans mikil. Ungliðastarfið á Spáni er rómað, vellir og æfingasvæði í sérflokki. Gæða leikmenn hafa komið fram í hrönnum og landslið Spánar hefur verið í sérflokki. En nú eru blikur á lofti.

Á barmi gjaldþrots

Flest félög ramba nú á barmi gjaldþrots. Skuldir þeirra eru stjarnfræðilegar og fjölmörg félög skulda fúlgur fjár í skatta. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eru að rannsaka fjárreiður spænskra liða og Financial Fair Play tekur að fullu gildi á næsta leiktímabili. Það þýðir að lið verða að vera sjálfbær í rekstri, annars verða þau sektuð eða útilokuð frá keppni í Evrópu. Malaga hefur þegar verið útilokað frá keppni í Meistaradeildinni á næsta ári. Þeir féllu á dögunum úr leik í átta liða úrslitum gegn Dortmund. Deportivo de La Coruna var lengi stórveldi og komst til að mynda í undanúrslit Meistaradeildarinnar árið 2004. Þar er allt í rjúkandi rúst og flestir gera ráð fyrir að liðið verði hreinlega gjaldþrota í sumar. Sama má segja um Racing Santander. Stórlið Valencia er í raun gjaldþrota og að auki undir rannsókn Framvkæmdastjórnarinnar vegna þess að lán voru afskrifuð með afar vafasömum hætti.

Misskipt gæði

Sjónvarpsréttur skilar knattspyrnufélögum gríðarlegum tekjum. Almennt selja deildirnar réttinn sameiginlega en þannig er það ekki á Spáni. Liðin semja sér og það þýðir að Barcelona og Real Madrid fá langmest í sinn hlut. Á síðasta ári fékk Real Madrid til dæmis 120 milljón pund fyrir sjónvarpsréttinn en Granada aðeins 10 milljónir. Munurinn var tólffaldur. Englandsmeistarar Mancester City fengu á sama tíma 60 milljónir punda en Úlfarnir og Blackburn sem féllu, fengu fjörutíu milljónir punda. Þessu vilja menn breyta á Spáni en það gengur hægt. Barcelona og Real hafa samþykkt að lækka hlutfall sitt úr 42 prósentum í þrjátíu og fjögur en samningur er ekki í höfn.

Fall er fararheill?

Í vikunni voru samþykktar nýjar reglur á Englandi sem tryggja þeim liðum sem falla niður um deild sextíu milljónir punda á fjögurra ára tímabili. Þessi stuðningur hefur aukist verulega á síðustu árum og í raun gert liðum sem falla kleift að lifa af. Þessu er ekki til að dreifa á Spáni. Francisco Roca, aðalframkvæmdastjóri spænsku deildarinnar segir að það sé erfitt fyrir bresk lið að falla niður um deild en á Spáni séu það hreinar náttúruhamfarir. Lið fá innan við tíu prósent af þeim tekjum sem þau fengu í efstu deild. Gjaldþrot blasir við fallistunum og Roca segir þetta stærsta vandamálið í spænskum fótbolta.

David Dein, fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Arsenal og enska knattspyrnusambandsins bendir á að sjö ensk lið hafi verið í úrslitum meistaradeildarinnar á síðustu átta árum, þar af hafi þrjú mismunandi lið staðið uppi sem sigurvegarar. Á sama tíma hafi þetta verið þrjú lið frá Spáni og aðeins eitt þeirra hafi sigrað, Barcelona.

Snorrabúð stekkur

Barcelona og Real Madrid hafa borið höfuð og herðar yfir önnur lið á Spáni. Deildin hefur liðið fyrir það því spennan er lítil, yfirburðirnir eru slíkir. Þessi tvö lið fá alla peningana og alla bestu leikmennina. En nú er hún Snorrabúð stekkur. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í síðustu viku að hún væri að hugleiða að hefja formlega rannsókn á Real Madrid og meintum ólöglegum stuðningi Madrídarborgar við liðið árið 2011. Málið á sér langa forsögu. Árið 1998 bjargaði stórliðið fjárhag sínum með því að selja Madridarborg æfingasvæði sitt á besta stað í borginni fyrir stórfé. Fé sem notað var í Galacticos væðingunni. Forseti félagsins, Florentino Perez fékk til liðsins stórstjörnur á borð við Luis Figo, Zinedine Zidane, Ronaldo og David Beckham og varð risaveldi í knattspyrnuheiminum á ný.

Í draumi sérhvers manns...

Sá gjörningur er fyrndur hvað Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins varðar en ekki lokahnykkur þess frá 2011. Í ljós kom að jarðnæði sem Real Madrid fékk á sínum tíma var ekki í eigu Madridarborgar. Borgin ákvað að bæta fótboltaklúbbnum meint tjón með geysiverðmætu landsvæði og fasteignum. Og borgin gerði vel við Real því landið sem það fékk bætt var verðmetið fimmtíu og fjórum sinnum meira en árið 1998. Fimmþúsund og fjögur hundruð prósent ávöxtun er ekki slæmt fyrir fótboltafélag sem aftur gat keppt við Barcelona um bestu bitana. Real fékk meðal annars verðmætt land umhverfis Bernabeu leikvanginn sem nota á til að stækka völlinn og byggja hótel og verslunarmiðstöð.  Kostnaður við það verkefni er 200 milljónir punda. Völlurinn tekur þá tíu þúsund fleiri í sæti og hann verður yfirbyggður. Þótt forráðamenn Real Madrid neiti því að hafa gert nokkuð rangt segja sérfræðingar þetta augljóst dæmi um ólöglegan opinberan stuðning. Afleiðingarnar fyrir Real Madrid gætu orðið svakalegar á endanum. Spænskur fótbolti er í miklum vanda.