Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Spá því að Snæfellsjökull hverfi um árið 2050

26.04.2019 - 07:01
Mynd með færslu
Snæfellsjökull. Mynd úr safni.  Mynd: RÚV
Talið er líklegt að Snæfellsjökull verði að mestu horfinn um miðja öldina, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Jökullinn hefur rýrnað mikið vegna hlýnandi loftslags síðustu áratugi og er flatarmál hans nú minna en 10 ferkílómetrar. Árið 1910 var flatarmálið um 22 ferkílómetrar.

Jökullinn er að jafnaði um 30 metra metra þykkur. Vetrarafkoma jökulsins var mæld í fyrsta sinn á annan í páskum og þá fóru sjö manns á jökulinn, frá Veðurstofu Íslands, Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og ferðaþjónustunnar Summit Guides. Snjókjarni var boraður í um 1.350 metra hæð, sunnan Miðþúfu. Hann var vigtaður, eðlisþyngd hans ákvörðuð og lagskipting skráð. Einnig var hiti snævarins mældur og var innan við tveggja stiga frost í öllu vetrarlaginu.

Önnur hola var boruð í um þúsund metra hæð í norðurhlíðum jökulsins og var vetrarlagið þar rúmlega 4 metra þykkt. Þar liggja oft skaflar sumarlangt og var borað í eldra hjarni niður á sjö metra dýpi.

Á vef Veðurstofunnar er haft eftir Þorsteini Þorsteinssyni, sérfræðingi í jöklarannsóknum, að niðurstöður mælinganna hafi ekki komið á óvart en að vissulega sé ekki hægt að bera þær saman við niðurstöður annarra mælinga þar sem þetta var sú fyrsta. „Það væri hins vegar full ástæða til að reyna að fjármagna reglulegar afkomumælingar á Snæfellsjökli til að auka enn þekkingu okkar á viðbrögðum íslensku jöklanna við loftslagsbreytingum og ekki síður vegna þess að jökullinn hefur öðlast frægð í máli og myndum," er haft eftir Þorsteini á vef Veðurstofunnar. Þorsteinn hefur mælt fjölda jökla á Íslandi og var einn leiðangursmanna á Snæfellsjökli á annan í páskum.