Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spá nýrri uppsveiflu árið 2020

25.01.2019 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
2019 er árið þar sem íslensk heimili og fyrirtæki pakka í vörn að því er fram kemur í uppfærðri þjóðhagsspá greiningar Íslandsbanka 2018 til 2020. Spáð er 1,1 prósent hagvexti í ár en ný uppsveifla hefst svo á nýjum áratug með 3,1 prósent hagvexti árið 2020. Þá er spáð 52 prósent vexti í íbúðafjárfestingu, sem mun leiða vöxt fjárfestingar á tímabilinu. Einnig kemur fram í skýrslunni að líklegt sé að hægi á kaupmátti launa.

Árin 2013 til 2017 var hagvöxtur að jafnaði 4,4 prósent ár hvert. Uppgangur ferðaþjónustunnar á þar drjúgan hlut að máli ásamt fleiri hagfelldum þáttum sem hafa ýtt undir vöxt einkaneyslu og fjárfestingar. „Tölur fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2018 sýna áframhald þessarar þróunar. Hagvöxtur mældist 5 prósent á tímabilinu og skýrðist hann ekki síst af allhröðum vexti einkaneyslu og hagstæðu framlagi utanríkisviðskipta til vaxtar. Ýmis merki eru hins vegar um að hægt hafi talsvert á vextinum á lokafjórðungi ársins og gerum við því ráð fyrir að vöxtur hafi verið 3,7 prósent á árinu 2018 í heild,“ segir í skýrslunni.

Þá kemur fram að drifkraftar vaxtar undanfarinna missera verði í einhvers konar hvíldarstöðu á árinu. Einkaneysluvöxtur verði hægur, vöxtur þjónustuútflutnings lítill og samdráttur verður í fjárfestingu atvinnuvega frá fyrra ári sem hljóðar upp á 1,1 prósent hagvöxt á árinu. Horfur eru á að vöxturinn taki við sér á næsta ári og reynist þá 3,1 prósent. „Þar kemur við sögu líflegri vöxtur einkaneyslu, endurkoma vaxtar í atvinnuvegafjárfestingu og áframhaldandi vöxtur annarrar fjárfestingar sem og vöru- og þjónustuútflutnings.“

Árið prófsteinn á hversu vel ferðaþjónustunni tekst að takast á við fullorðinsárin

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að ferðaþjónustan sé að færast í átt að auknu jafnvægi og að árið í ár veðri prófsteinn á hversu vel ferðaþjónustunni tekst að takast á við fullorðinsárin. Áfram er spáð vexti í ferðaþjónustu en töluvert hægari en verið hefur.

„2018 var fyrsta árið frá því hinn ævintýralegi vöxtur ferðaþjónustunnar hófst fyrir alvöru þar sem gengi krónu styrktist ekki milli ára. Krónan fór að veikjast nokkuð síðastliðið haust eftir mikinn styrkingarfasa undanfarin ár. Ísland er því orðið heldur ódýrara fyrir ferðamanninn en það var um mitt síðasta ár. Ferðaþjónustan ber þess merki að hún er að fullorðnast, þar sem hagræðing og sameiningar hafa í vaxandi mæli tekið við af hröðum vexti og framboðsaukningu meðal margra fyrirtækja í geiranum,“ segir meðal annars um ferðaþjónustuna.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV