Spá að Airbnb verði umfangsmeira en hótelin

11.04.2018 - 09:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gisting í gegnum vefinn Airbnb verður umfangsmeiri en gisting á öllum hótelum á landinu á þessu ári, gangi spá Greiningar Íslandsbanka eftir. Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna sem kom út í dag.

Útleiga á gistirými í gegnum Airbnb nam á síðasta ári 28 prósentum af markaði með gistirými. Hótel voru með 37 prósent, gistiheimili 11 prósent, tjaldsvæði 9 prósent, íbúða- og heimagisting 7 prósent og farfuglaheimili 5 prósent. Þrjú prósent í fyrra var annars konar gisting. „Haldi markaðurinn áfram að þróast með sama hætti er líklegt að Airbnb selji álíka margar ef ekki fleiri gistinætur en öll hótel landsins til saman á þessu ári,“ segir í skýrslunni

76% fjölgunar til Airbnb 

Gistinóttum hér á landi fjölgaði um 2,1 milljón á síðasta ári. Þar af tók Airbnb til sín um 1,6 milljónir gistinótta eða 76 prósent af fjölguninni. Alls voru 3,2 milljónir gistinótta seldar í gegnum Airbnb í fyrra. Það er tvöföldun frá fyrra ári og sjöfalt meira en á árinu 2015. Það ár var umfang Airbnb nánast alfarið bundið við höfuðborgarsvæðið. Það hefur breyst og eru nú fjórar af hverjum tíu seldum gistinóttum á landsbyggðinni seldar í gegnum Airbnb.  

Ljóst að Airbnb er komið til að vera

Skýrsla Íslandsbanka var kynnt á fundi í Perlunni í morgun. Í pallborðsumræðum sagði Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, að þau finni að sjálfsögðu fyrir auknu vægi Airbnb. „Aukningin hefur að stærstum hluta farið inn í þessa gistingu. Við horfum á samfélagið í heild sinni og sjáum að þetta hefur áhrif á íbúðamarkaðinn og það er áhyggjuefni. Við höfum áhyggjur af gistingu sem er ekki uppi á yfirborðinu, að aðilar séu ekki með tilskilin leyfi og slíkt.“ Hann sagði ljóst að Airbnb væri komið til að vera og að hótelin þurfi að læra að vinna með því. „Það er engin spurning, það þarf að vinna með þessu.“

Meðalverð á gistingu á heilu heimili í gegnum Airbnb hér á landi er 21.600 krónur. Til samanburðar er meðalverð á hótelherbergi í Reykjavík 19.700 krónur. Fleiri geta gist á heilu heimili en á hótelherbergi og er meðalverðið því lægra hjá Airbnb en á hótelum.