Sóttu 9,5 tonn af rusli á Hornstrandir

17.07.2018 - 11:00
Varðskipið Þór sótti níu og hálft tonn af rusli í friðlandið á Hornströndum um helgina. Þetta er í fimmta sinn sem strandirnar eru hreinsaðar með skipulögðum hætti og aldrei hefur safnast meira rusl. Við erum enn bara að krafsa ofan af ruslinu, segir forsprakki ruslahreinsunar í friðlandinu á Hornströndum eftir fimmtu ferðina.

Ruslið sótt í Bolungavík

Félagið Hreinni Hornstrandir hélt með þrjátíu sjálfboðaliða í árlega ruslaferð í friðlandið á Hornströndum í júní. Áætlað var að varðskipið Þór sækti ruslið en skipið þurfti frá að hverfa vegna annarra verkefna. Um helgina hélt skipið því norður eftir, ásamt nokkrum sjálfboðaliðum, til að hirða ruslið - í Bolungavík á norðaustanverðum Hornströndum.

Mynd með færslu
 Mynd: GoogleMaps
Bolungavík í friðlandi Hornstranda

Fyllist fljótt aftur af rusli

„Við erum að verða búin að hreinsa þessa helstu rekastaði á Hornströndum en það er alveg ljóst að við þurfum að fara aftur á staði þar sem við höfum verið. Svæðin sem við tókum fyrir tveimur árum eru orðin full aftur. Og hluti af því er að fjaran er svosem að hreyfast. Við hreinsuðum þetta fyrir fjórum vikum síðan og á þessum tíma erum við að sjá nýja hluti koma upp úr fjörunni,“ segir Gauti Geirsson, forsprakki verkefnisins. Ruslið var flutt úr ruslahrúgum í fjörunni með léttabátum um borð í Þór og þurftu starfsmenn landhelgisgæslunnar að fara tugi ferða, enda hefur aldrei safnast meira rusl en í ár.

Mest útgerðartengt rusl

Hvað er það sem þið finnið mest af? „Mest útgerðartengt dót sem er alveg 70-80-90 prósent af því sem við erum að taka en svo finnum við líka mikið af smáhlutum sem eru farnir að brotna niður. Tómatsósuflöskur, skór, allskonar plasthlutir sem að eru sem eru að fjúka niður af landi. Sumir alveg nýir.  Það er svolítið sárt að sjá það er sömuleiðis líka sárt að sjá hvað þetta er mikið, bara ótrúlegt,“ segir Gauti.

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Áletranir gefa vísbendingar um uppruna ruslsins

Reyna að átta sig á uppruna ruslsins

Ruslið kemur víða að úr heiminum. „Það er erfitt að sjá... hvort það sé frá einum stað eða öðrum. En við erum með litla hluti, lítil púsl í púsluspilið, sem geta frætt okkur frekar um hvaðan hlutirnir koma,“ segir Catherine Chambers sem er fagstjóri Haf- og strandsvæðastjórnunar hjá Háskólasetri Vestfjarða og sjálfboðaliði. Gerðir veiðarfæra geta sagt til um uppruna þeirra og aldur. Þá geta áletranir og til dæmis framleiðsludagur á umbúðum gefið góðar vísbendingar. Suma hluti er hægt að rekja mjög nákvæmlega: „Það eru bara þessi liltu púsl sem veita okkur skilning á ekki bara hvað birtist og hve mikið heldur einnig hvernig það ratar í hafið.“

28 tonn af rusli flutt af Hornströndum

Ruslið var flutt til hafnar á Ísafirði og vó níu og hálft tonn. 28 tonn af rusli hafa nú verið hreinsuð úr friðlandinu á síðustu árum með þessum hætti. „Við erum samt bara að krafsa ofan á og þótt þetta sé lítið í stóra samhenginu að ef allir leggja sitt af mörkum, hugsa um neysluna, þá held ég að saman getum við gert mikið,“ segir Gauti.