Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sótti fimm metra snák í garð aldraðrar konu

25.03.2020 - 04:55
„Þetta er stærsti snákur sem ég hef séð í 27 ár," sagði snákaeftirlitsmaðurinn Tony Harrison eftir að hann aðstoðaði aldraða konu við að fjarlægja snák sem var við útidyr húss hennar við Oxenford í Ástralíu. Snákurinn reyndist fimm metra langur búrmískur pýton-snákur, sem vó um 80 kílógrömm. 

Harrison er vanur því að fólk ýki þegar það hringir í hann eftir aðstoð, en að þessu sinni var snákurinn risavaxinn. Harrison kvaðst feginn að dýrið var ekki árásargjarnt. Snákar af þessari tegund eru ekki landlægir í Ástralíu. Hann hefur því verið ólöglegt gæludýr einhvers, og hefur vistin að líkindum ekki alltaf verið ánægjuleg. Hluta vantar af hala snáksins og hann er með ör víða um skrokkinn, hefur Guardian eftir Harrison.

Harrison hafði þegar í stað samband við landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið, svo starfsmenn þess gætu sótt dýrið. Strax á eftir hringdi hann í skóla sonar síns, svo hann gæti sýnt honum snákinn. Þeir feðgar voru líklega með þeim allra síðustu til að sjá snákinn á lífi, því samkvæmt áströlskum lögum þarf að öllum líkindum að lóga honum. Ströng lög eru gegn ólöglegu dýrahaldi í Ástralíu. Hámarks sekt við því að hafa snák á borð við þennan sem gæludýr er jafnvirði um ellefu milljóna króna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV