Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sorpkvarnir í eldhúsvaska

26.01.2017 - 14:47
Mynd: - / Wikimedia
Eru sorpkvarnir undir eldhúsvöskum góðar fyrir umhverfið? Um þetta fjallar Stefán Gíslason í pistli sínum í dag.

 

Síðustu daga hefur umræða um sorpkvarnir í eldhúsvöskum skotið upp kollinum, m.a. í tengslum við fyrirspurn í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar um það hvort einhverjar reglur séu til um notkun slíkra kvarna á heimilum í Reykjavík. Í fyrirspurninni var vikið að því hakkaðar matarleifar frá heimilum væru til þess fallnar að fæða mýs og rottur sem ef til vill hafa aðgang að holræsakerfinu.

 

Sorpkvarnir hafa aldrei náð verulegri útbreiðslu í íslenskum eldhúsvöskum en einhverjir hafa þó komið sér upp slíkum búnaði, væntanlega m.a. vegna hvatningar frá söluaðilum sem benda gjarnan á þetta sem umhverfisvæna lausn til að losna við matarleifar. Allir þurfa einhvern tímann að losa sig við matarleifar, jafnvel þótt reynt sé að halda matarsóun í lágmarki. Því er eðlilegt að spurt sé hversu góðar þessar kvarnir séu frá umhverfislegu sjónarmiði.

 

Yfirleitt er hæpið að svara spurningum um umhverfislegt ágæti einhvers með jái eða nei, enda er heimurinn ekki svarthvítur. Svarið verður líka að ráðast af aðstæðum þess sem spyr. Þetta gildir um sorpkvarnir rétt eins og flest annað. Þær eru hvorki 100% góðar né 100% slæmar í umhverfislegu tilliti. En við íslenskar aðstæður virðast þó flest rök hníga að því að slíkar kvarnir eigi ekkert erindi í vaskana.

 

Stærsti gallinn við sorpkvarnir er líklega sá að með því að senda matarleifar í gegnum þær og út í fráveitukerfið tapast þær auðlindir sem búa í þessum leifum. Þetta er sérstakt áhyggjuefni í landi eins og Íslandi þar sem eyðing gróðurs og jarðvegs eru meðal alvarlegustu umhverfisvandamálanna. Í svoleiðis landi er í raun bráðnauðsynlegt, bæði fyrir vistkerfi og hagkerfi, að nýta það lífræna efni sem til fellur sem jarðvegsbæti, hvort sem það er til uppgræðslu eða áburðar á gróið land. Og svo er líka hægt að fá úrvals eldsneyti í kaupbæti.

 

Annað atriði sem skiptir máli í umræðunni um sorpkvarnir er sú staðreynd að fráveitukerfi á Íslandi eru ekki hönnuð til þess að taka við þessum úrgangi. Matarleifar í fráveitukerfinu breyta sýrustigi þess og örverugróðri sem hvort tveggja er líklegt til að flýta tæringu á lögnum, samsetningum, dælum og öðrum búnaði í kerfinu. Einnig eykst þá hættan á að brennisteinsvetni myndist í lögnunum. Um leið auka matarleifarnar álag á hreinsistöðvar, þar sem þær eru á annað borð til staðar. Víða um land á reyndar engin hreinsun sér stað, heldur er skólpinu dælt til sjávar eins og það kemur fyrir. Á höfuðborgarsvæðinu er vatnið grófhreinsað til að ná úr því stærstu ögnunum og það sem þannig safnast fer til urðunar. Eitthvað af hökkuðu matarleifunum fer þar með og endar síðan í urðun, rétt eins og það hefði gert ef leifunum hefði verið hent í ruslið. Þær hefðu þá bara getað sparað sér þetta ferðalag í gegnum fráveitukerfið. Á nokkrum stöðum á landinu eru fullkomnari hreinsistöðvar og eðlilega eykst álagið á þær eftir því sem meira af föstu efni er í fráveituvatninu. Loks eru allmörg hús tengd við rotþrær, sem eru heldur ekki hannaðar til þess að fást við matarleifar, nema þá þær leifar sem eru búnar að fá formeðhöndlun í meltingarfærum manna og brotna því fyrr niður í rotþrónni en ferskt hakk.

 

Auk alls þess sem hér hefur verið nefnt fer ekki hjá því að mýs og rottur gleðjist yfir hverjum matarbita sem fráveitukerfið býður upp á, ef þessi dýr hafa á annað borð aðgang að kerfinu. Þar við bætist svo að því meira af föstu efni sem er til staðar í fráveitulögnum, þeim mun meiri hætta er á að efni setjist innan á lagnirnar og valdi stíflum þegar fram í sækir. Í því sambandi er vert að hafa í huga að einhver hluti af matarleifum er fita sem leysist illa upp í vatni, sérstaklega köldu vatni.

 

Eins og ég nefndi áðan hafa Íslendingar ekki mikla reynslu af sorpkvörnum og því er eðlilegt að grafast fyrir um reynslu sem aðrar þjóðir kunna að hafa aflað sér. Reyndasta þjóðin í þessum efnum eru líklega Bandaríkjamenn þar sem sorpkvarnir eru víða nánast sjálfsagður hluti af eldhúsinnréttingunni. Þar eru neysluvenjur og aðferðir við úrgangsmeðhöndlun hins vegar að öllum líkindum frekar ólíkar því sem gerist hérlendis og því er nærtækara að líta til nágrannalanda á borð við Svíþjóð og Danmörku.

 

Það má kannski orða það svo að yfirvöld í Svíþjóð sýni sorpkvörnum ákveðið umburðarlyndi. Eins og nærri má geta hefur Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) gefið út skýrslu, eða öllu heldur leiðbeiningar um sorpkvarnir, þar sem m.a. er fjallað um kosti þeirra og galla við sænskar aðstæður. Meginniðurstaðan er sú að sorpkvarnir séu þægilegt kerfi, en að til séu aðrar lausnir sem nýti í mörgum tilvikum betur orkuna og næringuna sem í matarleifunum felst, svo ég reyni nú að halda því kurteislega stofnanamáli sem einkennir sænska frumtextann.

 

Þegar Íslendingar bera sig saman við Svía í fráveitumálum er mikilvægt að hafa í huga að þarlendis fer fráveituvatnið nær undantekningarlaust í gegnum öflugar hreinsistöðvar með settjörnum, síum, líffræðilegri og efnafræðilegri hreinsun áður en vatninu er sleppt út í umhverfið. Í slíkum hreinsistöðvum er nær öllu lífrænu efni haldið til haga. Það er síðan meðhöndlað í gas- og jarðgerðarstöðvum til framleiðslu á metangasi og seyru til áburðar – og þar með er komið í veg fyrir að auðlindirnar í lífræna efninu fari til spillis. Reyndar bendir Naturvårdsverket á að betra sé að safna lífræna úrganginum sér í stað þess að láta hreinsistöðvarnar um það, því að þannig sé hægt að framleiða meira metangas úr hverju kílói, auk þess sem minna tapist af köfnunarefni og kalíum samanborið við það sem gerist í fráveitukerfinu. Eitthvað er líka um að bændur hiki við að nota seyru úr hreinsistöðvum af ótta við að hún innihaldi leifar af lyfjum og öðrum óæskilegum efnum.

 

Dönsk stjórnvöld eru neikvæðari í garð sorpkvarna en þau sænsku. Einhver sveitarfélög í Danmörku hafa leyft húseigendum að setja upp slíkar kvarnir en víðast mun það vera óheimilt. Eitt af því sem menn hafa bent á, þar og víðar, er sú hætta að annar úrgangur, þar með talið frauðplast, rati í kvarnirnar og bætist ofan á þann ört vaxandi vanda sem stafar af plastögnum í náttúrunni.

 

Nú kann einhver að benda á að lífrænn úrgangur sem berst til sjávar frá sorpkvörnum sé góð næring fyrir sjávarlífverur. Það kann reyndar að geta átt við í einstaka tilvikum en samt er jafnvel líklegra að lífrænt efni sem haugast út á einum stað á grunnsævi raski því lífríki sem þar er fyrir. Um það er þó auðvitað ekkert hægt að fullyrða, hvorki til né frá, án þess að kanna aðstæður.

 

Meginniðurstaðan er sem sagt sú að sorpkvarnir eigi ekkert erindi í eldhúsvaska á Íslandi. Í svona landi er bráðnauðsynlegt að nýta þann lífræna úrgang sem til fellur og reyndar sætir það furðu að enn séu til sveitarfélög hérlendis sem ekki safna lífrænum úrgangi sem íbúar nýta ekki sjálfir.

 

 

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður