Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Soros réði engu um Panamaskjölin

28.07.2016 - 21:25
Mynd með færslu
 Mynd:
George Soros hafði engin áhrif á fréttaflutning Alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna, ICIJ, og samstarfsmanna þeirra af Panamaskjölunum. Þetta segir Gerard Ryle, framkvæmdastjóri ICIJ, aðspurður um orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Forsætisráðherrann fyrrverandi sagði í viðtali á Útvarpi Sögu í gær að Soros hefðu fjármagnað skjölin og gæti notað þau að vild.

Sigmundur Davíð var spurður út í afhjúpanir Panamaskjalanna á Útvarpi Sögu með þeim orðum hvort hann vissi hver hefði staðið að atlögunni að honum. Sigmundur sagðist hafa hugmynd um það en þurfa annan þátt til að fara yfir þau mál. Sigmundur sagði atlöguna verið unna um sjö mánaða skeið í nokkrum löndum með gögnum úr Panamaskjölunum. Hann vísaði til þess að Soros hefði komið að fjármögnun ICIJ og sagði athyglisvert að fáir Bandaríkjamenn og sennilega engir vogunarsjóðsmenn hefðu komið við sögu. Þetta taldi hann til marks um að ritstýrt væri um hverja væri fjallað og að Soros gæti farið sínu fram.

Þessu vísar Ryle alfarið á bug. Hann segir samtökin fjármögnuð með framlögum frá góðgerðasamtökum en hafna ríkisstyrkjum. „Ein samtakanna eru Open Society Foundation sem George Soros fjármagnar. Við þiggjum aðeins styrki með því skilyrði að okkur sé ekki sagt hvað við eigum að fjalla um. Enda gerist það ekki. Á endanum tek ég, sem framkvæmdastjóri ICIJ, allar ritstjórnarákvarðanir. Við veljum umfjöllunarefni vegna þess að þau eiga erindi við almenning og vinnum með fjölmiðlafyrirtækjum um allan heim, frá sumum þeirra stærstu til sumra þeirra minnstu.“ Ryle segir að fjölmiðlafyrirtækin myndu neita að eiga samstarf við ICIJ ef þau létu ráðast af einhverjum markmiðum öðrum en blaðamennskugildum. Þess vegna fái styrkjendur ekki að hafa áhrif á umfjöllunina og allar ritstjórnarákvarðanir séu teknar með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Ryle þvertekur fyrir að ætlunin með Panamaskjölunum hafi verið að vega að Sigmundi Davíð og segir samtökin og samstarfsmenn þeirra ekki hafa gert það. Umfjöllun um Sigmund Davíð hafi ekki verið af pólitískum toga. „Hann var forsætisráðherra og þar með opinber persóna. Sem blaðamenn höfðum við fullan rétt til að spyrja hann út í þetta og spurðum hann þremur vikum fyrir útgáfu. Hann fékk næg tækifæri til að svara og setja Wintris í samhengi.“