Sorglegustu smellir sem hægt er að hlusta á

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay

Sorglegustu smellir sem hægt er að hlusta á

26.08.2018 - 10:46

Höfundar

Gríðarstórt gagnasafn streymisþjónustunnar Spotify gerir okkur kleift að finna út hvaða lög eru sorglegust eða gleðilegust. Gagnablaðamanni BBC rann blóðið til skyldunnar og lét reyna á reiknirit Spotify og komst til botns í því hvaða smellir sem komist hafa á topp vinsældalista séu þeir sorglegustu.

Spotify býr yfir nákvæmum lýsigögnum um öll þau 35 milljón lög sem safn þess hefur að geyma. Með hjálp reiknirita heldur streymisþjónustan því fram að hægt sé að mæla hversu sorgleg eða gleðileg lögin eru. Það er gert með því að gefa lögunum einkunn á skala sem nefnist „valence“. Hugtakið er fengið úr sálfræði og er ætlað að meta hversu jákvæðar eða neikvæðar tilfinningar viðburðir, hlutir eða aðstæður vekja hjá fólki.

Gagnablaðamaður breska ríkisútvarpsins BBC fór yfir gögn Spotify og bar þau saman við vinsældalista Billboard aftur til ársins 1958. Niðurstaðan var sú að lag Robertu Flack síðan 1972, „The First Time I Ever Saw Your Face“, er sorglegasti smellur þess tíma.

Fimm sorglegustu lögin á Spotify eru eftirfarandi:

1. The first time ever I Saw Your Face – Roberta Flack (1972)
2. Three times a lady – Commodores (1978) 
3. Are you lonesome tonight? – Elvis Presley (1960)
4. Mr Custer – Larry Verne (1960) 
5. Still – Commodores (1979)

Á heildina litið eru vinsælustu lagasmíðarnar samt gleðilegar segir í grein BBC. Lög eins og „Hey Ya!“ með Outkast, „Macarena“ með Los Del Rio og „Brown Sugar“ með Rolling Stones. Í gagnasafni Spotify má einnig rekja hvaða lög er best að dansa við. Hvert dansvænasta lagið er kann að koma sumum á óvart, en það er „Ice Ice Baby“ með rapparanum viðkunnalega Vanilla Ice.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Fimm fersk lög fyrir helgina

Tónlist

Tíu stórkostlegir smellir poppdrottningarinnar

Bókmenntir

Bækur sem aðdáendur Krúnuleika ættu að lesa

Sjónvarp

Sex myndir og þættir sem þú elskar að hata