Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Söng með opna buxnaklauf á jólatónleikum Bó

Mynd: Guðmundur Pálsson / Guðmundur Pálsson

Söng með opna buxnaklauf á jólatónleikum Bó

01.09.2018 - 11:00

Höfundar

Helgi Björns varð sextugur fyrr í sumar og fagnaði afmælinu með því að spila fyrir aðdáendur sína í Stúdíói 12 í beinni útsendingu á Rás 2 og vefnum. Í næstu viku heldur hann svo risastóra afmælistónleika í Laugardalshöllinni sem hann sagði frá í Síðdegisútvarpinu þar sem hann var föstudagsgestur.

„Þetta er búið að vera mjög viðburðaríkur dagur,“ segir Helgi. „Ég vaknaði klukkan hálf 6 í morgun, af því ég vissi að ég væri að fara í ljósmyndatöku. Ég sá að það var rigning úti og lét rigna aðeins á hárið. Fyrir myndatökur er nauðsynlegt að eiga góðan hárdag. Síðan fór ég aftur inn og hristi aðeins vatnið af hárinu, og fór svo aftur að sofa. Þetta er það besta. Það verður ferskt á hátt sem þú nærð aldrei með tækjum eða gelum.“

Helgi segir undirbúninginn fyrir tónleikana ganga mjög vel. „Þetta er rosa gaman bara. Ég er með leikstjóra með mér í þessu, Vignir Rafn Valþórsson sem lék með mér í Ligeglad. Hann er svona rokktöffari og búinn að sjá mikið af tónleikum þannig hann hefur góða tilfinningu fyrir þessu.“ Starf hans felst meðal annars í að skipuleggja staðsetningu á ljósabúnaði, framvindu tónleikanna, dýnamíkina innan hljómsveitarinnar og réttu augnablikin til að keyra allt í gang. „En hann er ekkert að fara að segja mér að gera neitt,“ lýsir Helgi kotroskinn yfir.

Helgi hefur marga fjöruna sopið í tónleikahaldi, en einu sinni söng hann lag á jólatónleikum Björgvins Halldórssonar með opna buxnaklauf. „Ég var eitthvað að flýta mér og kem hlaupandi inn í „Ef ég nenni“. Í smóking og hvítri skyrtu þannig það er bara rosa áberandi. Ég fattaði það svo í miðju lagi og þá fór ég bara fremst á sviðið og renndi upp með stælum. Gerði bara atriði úr þessu. Svo eftir lagið skammaði ég salinn fyrir að hafa ekki látið mig vita af þessu.“

Hann er búinn að ákveða hvaða jakka hann ætlar að vera í á tónleikunum en harðneitar að gefa hann upp. Útvarpsmaðurinn Þórður Helgi Þórðarson hefur skorað á Helga að vera með skíðagleraugu þegar hann syngur „Þúsund sinnum segðu já“ eins og í frægri sjónvarpsupptöku frá níunda áratugnum. „Ég hafði nú ekki hugsað mér það, en fyrst það er kallað á eftir þessu skal ég taka það til athugunar.“

Rætt var við Helga Björnsson í Síðdegisútvarpinu.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Smíðaði fyrsta gítarinn sinn úr rusli

Tónlist

Helgi Björnsson sextugur