Söng Justin Bieber fyrir landsliðið

Mynd: Fifa / Albert Guðmundsson

Söng Justin Bieber fyrir landsliðið

02.07.2018 - 14:42
Albert Guðmundsson, yngsti leikmaður íslenska karlalandliðsins í fótbolta, er nýkominn heim af heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Hann er úr mikilli fótboltafjölskyldu og segist hafa verið byrjaður að sparka í fótbolta áður en hann byrjaði að labba. Albert Guðmundsson var mánudagsgestur í Núllinu.

Albert segir að það hafi haft mikið að segja fyrir hann að alast upp í kringum fótbolta og mikið sé rætt um fótbolta á heimilinu. Þegar hann var þrettán ára byrjuðu stór erlend fótboltafélög að fylgjast með honum og ræða við foreldra hans um hvort hann væri reiðubúinn til þess að fara í atvinnumennsku um leið og hann lyki grunnskóla. Hann segist þó ekki hafa verið undir pressu því að hann var alltaf staðráðinn í að verða atvinnumaður.

Þegar Albert lauk grunnskóla fór hann í atvinnumennsku hjá hollenska liðinu Heerenveen. Hann meðvitaður um þær fórnir sem því fylgdu að vera svo fjarri fjölskyldu og vinum. Hann segir að það hafi t.d. stundum verið erfitt að fara að sofa klukkan tíu eða ellefu þegar allir vinir hans á Íslandi voru á leið á skólaball. „Mamma var dugleg að minna mig á að þeir væru líka mjög til í að vera í mínum sporum,“ bætir hann við.

Albert hefur verið í Hollandi í fimm ár og spilar nú fyrir stærra lið, PSV, sem varð Hollandsmeistari í vor. Um svipað leyti fékk hann að vita að hann yrði í landsliðshópnum sem færi til Rússlands á heimsmeistaramótið. Hann segir að það hafi verið mikill léttir og um leið tilhlökkun þar sem það var mikill spenningur að sjá hverjir yrðu valdnir í hópinn.

Eins og áður segir er Albert yngsti leikmaðurinn í landsliðshópnum. Fyrr á árinu, þegar hann lék sinn fyrsta landsleik, þurfti hann að syngja lag til að vera tekinn inn í hópinn og segja söguna af því þegar hann frétti að hann hefði verið valinn í landsliðshópinn. Hann valdi að syngja lagið Baby með Justin Bieber.

Albert ræddi þetta og fleira í Núllinu. Hægt er að hlusta á viðtalið hér að ofan.