Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Söng dúett á móti Grace Jones óafvitandi

Mynd: Þórir Baldursson / Grace Jones

Söng dúett á móti Grace Jones óafvitandi

29.03.2018 - 10:15

Höfundar

„Ég varð eiginlega hálfskömmustulegur. Mér fannst ekki rétt hjá Tom að gera þetta að mér forspurðum. Helvíti brattur, ég hefði getað farið í mál við hann,“ segir Þórir Baldursson tónlistarmaður um lagið „Suffer“ með Grace Jones. Hann syngur dúett á móti henni í laginu hann hafði ekki hugmynd um að það stæði til meðan á vinnslu plötunnar stóð.

Tónlistarkonan, fyrirsætan og leikkonan Grace Jones frá Jamaica sendi frá sér þriðju sólóplötu sína, Muse, árið 1979. Þórir Baldursson var aðalútsetjari plötunnar ásamt því að spila á hljómborð og í einu af lögum plötunnar, Suffer, sem Þórir samdi ásamt Tom Moulton, söng hann dúett á móti Grace Jones án þess að hafa hugmynd um að það stæði til. Moulton tók ákvörðun um það án þess að láta Þóri vita og það kom Þóri algerlega í opna skjöldu, þegar platan kom út, að rödd hans hljómaði í laginu.

Þórir söng öll nýju lögin á plötunni til leiðbeiningar fyrir Grace. „Öll nýju lögin sem hún var að syngja, og kunni ekki endilega, þá þurfti hún að hafa svona „guide track“ þar sem hún gat hlustað á melódíuna og lært laglínuna þannig. Ég söng nokkuð mörg lög á svona guide track, sem var svo aldrei með í mixinu. Nema í einu tilfelli og það var að mér forspurðum, lag sem heitir Suffer.“

„Ég notaði þetta, og hann varð frekar reiður,“ segir Tom Moulton og hlær. „En mér fannst bara frábært hvernig hann söng þetta“. Moulton og starfsmenn hljóðversins voru sammála því að reiðilegur og kröftugur söngur Þóris með hans harða íslenska framburði ætti að vera með í laginu Suffer, enda væri hann skemmtileg andstæða við rödd söngkonunnar.

„Það var ástæðan fyrir því að við notuðum þetta, ég vona að hann hafi ekki verið of reiður,“ segir Moulton, og bætir við að ætlunin hafi ekki verið að gera grín að Þóri, heldur fannst þeim þvert á móti að þarna væri tækifæri til að gera stjörnu úr manninum á bak við tjöldin.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Baldursson
Þórir og Tom Moulton árið 1978

„Ég varð eiginlega hálfskömmustulegur. Mér fannst ekki rétt hjá Tom að gera þetta að mér forspurðum. Helvíti brattur, ég hefði getað farið í mál við hann,“ segir Þórir. „Mér þótti þetta rosalega asnalegt fyrst, en svo er ég alveg sáttur við það núna. Mér er eiginlega alveg sama, það er bara gaman að þessu.“

Árið er fjallar um ótrúlegan feril Þóris Baldurssonar í tveimur þáttum á Rás 2 á skírdag og föstudaginn langa. LEngri útgáfur verða aðgengilegar í hlaðvarpi og á RÚV.is. Hér fyrir ofan má heyra brot úr þáttunum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Kynntist Donnu Summer sem bakraddasöngkonu

Tónlist

Árið er: Þórir Baldursson – fyrri hluti