Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Sóley vill kanna réttarstöðu sína

07.06.2010 - 07:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Sóley Tómadóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, segist vera að kanna réttarstöðu sína vegna ummæla sem voru látin falla um hana í kosningabaráttunni. Þetta sagði hún í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. 8,4 % kjósenda Vinstri grænna strikuðu yfir eða færðu Sóleyju til á listanum.

Sóley segir líklega margar skýringar á þessum útstrikunum. Hún sagði að umfjöllun í bloggheimum og á netinu um sig væri ein ástæða þessa, dregin hefði verið upp sú mynd af henni að hún væri öfgafullur femínisti.

Í þessu sambandi benti Sóley á að femínismi væri ein grunnstefna Vinstri grænna. Hún segir að víða innan flokksins ríki andstaða við femínisk viðhorf og að umræða um þetta þurfi að fara fram innan flokksins. Henni hafi verið legið á hálsi fyrir að framfylgja stefnu flokksins.

Hún sagði í viðtalinu að hún hefði fengið miklar þakkir fyrir að standa í baráttunni fyrir femínisma. Útstrikanirnar veiki ekki stöðu hennar sem oddvita.

Varðandi útkomu Vinstri grænna í Reykjavík sagði Sóley að meiri samskipti þyrftu að vera á milli borgarfulltrúa og fólksins í borginni.

„Eftir það sem á undan er gengið er mér nóg um hversu vegið hefur verið að mannorði mínu. Ég er að kanna réttarstöðu mína vegna ákveðinna orða sem hafa verið látin falla í þessari kosningabaráttu," Sóley sagði að þetta hefði verið harðasta aðför að mannorði sínu sem hún hefði orðið fyrir. Verið væri að fara yfir öll gögn sem tengdust málinu. 

„Ég þarf að láta á það reyna hvort það sé í lagi að mitt nafn hafi verið notað með þeim hætti sem það var notað," sagði Sóley og sagði að bæði væri um að ræða ummæli sem hefðu verið látin falla af öðrum stjórnmálamönnum og það sem sagt hefði verið á öðrum vettvangi.

„Þetta er eitthvað sem ég er að skoða og finnst eðlilegt að láta reyna á," sagði Sóley í Morgunútvarpi Rásar 2.