Sóley verður beikonsendiherra

Mynd með færslu
 Mynd:
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG og forseti borgarstjórnar, hefur verið skipuð beikonsendiherra á vegum Beikonbræðralagsins. Sóley hyggst beita sér fyrir eflingu mannúðlegrar svínaræktar í landinu. Hún neitar því að tiltækið sé til þess gert að stríða utanríkisráðherra og nýskipuðum sendiherrum.

Íslenska beikon bræðralagið er félagsskapur sem meðal annars stendur fyrir Reykjavík Beikon Festival - beikonhátíð sem haldin er árlega í miðborg Reykjavíkur. Starf beikonsendiherra er víðtækt og taka mið af starfi góðgerðarsendiherra, líkt og tíðkast hjá alþjóðastofnunum og góðgerðarfélögum, samkvæmt upplýsingum frá ÍBB. Sóley tekur þegar til starfa.

Fagnar nýrri „beikonsystur“ í bræðralaginu

Árni Georgsson, einn meðlima Bræðralagsins, fagnar skipun Sóleyjar. „Hún verður frábær talsmaður beikonsins og með þessu treystum við enn frekar böndin við Reykjavíkurborg. Eins fögnum við því nú að eignast beikonsystur. Eðli málsins hallar nokkuð á kynin þar sem þetta er jú bræðralag. Það er við hæfi að Sóley rjúfi þarna kynjamúrinn eina ferðina enn.“

Ekki að stríða utanríkisráðherra

Sóley segist ætla að beita diplómatískum hæfileikum sínum til að auka veg og vanda beikons í samfélaginu. Auk þess vilji hún beita sér til að efla mannúðlegri svínarækt á Íslandi.

Deilt hefur verið Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra eftir að hann skipaði tvo nýja sendiherra. Það voru þeir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og Árni Þór Sigurðsson, þingmaður og flokksbróðir Sóleyjar. Hún er ein fimm kvenna sem sóttu um sendiherrastöðu í opnu bréfi á vefsíðunni Knuz.is í gær. Sóley hafnar því hins vegar að hún sé að gerast beikonsendiherra til þess eins að stríða utanríkisráðherra og sendiherrunum nýju.

„Nei, nei, þvert á móti,myndi ég segja. Þetta sýnir eindreginn vilja minn til að sinna störfum sendiherra. Þetta er bara fyrsta skrefið og ég er viss um að utanríkisráðherra mun fylgjast með mér og mér verði boðin staða í framhaldinu.“  

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi