Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sökin er ekki mín

Mynd: RÚV / RÚV

Sökin er ekki mín

04.04.2018 - 15:39

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Jóhann Helgason undirbýr málsókn gegn Universal Music vegna meints hugverkastuldar á laginu Söknuður. Lagið sem um ræðir heitir „You Raise Me Up“ og varð heimsþekkt í flutningi bandaríska söngvarans Josh Groban, sem sagði þau vera sláandi lík í viðtali í Kastljósi árið 2007.

Líkindi laganna voru borin undir söngvarann þegar rætt var við hann í Kastljósi vegna tónleika sem hann hélt í Laugardal árið 2007. „Þau eru sláandi lík,“ segir Groban í viðtalinu. „Ég samdi það ekki, svo sökin er ekki mín.“

Groban segir að lag Jóhanns sé fallegt og þeim svipi vissulega saman. „Ég verð að spyrja höfundinn [Rolf Løvland, höfund „You Raise Me Up“] hvaðan innblásturinn kom.“

Groban segir að lagið sæki fyrirmyndir sínar víða að og hljómagangurinn sé sífellt endurtekinn. Hann nefnir lagið „Danny Boy“ sem dæmi og segir að svona sé farið í mörgum öðrum lögum. „En þetta er athyglisvert,“ bætir hann við. „Ég hafði aldrei heyrt þetta og nú er ég stórhrifinn. Þetta er fín rödd.“

Jóhann Helgason hélt blaðamannafund um fyrirhugaða málsókn gegn Universal Music og höfundum „You Raise Me Up“ fyrr í dag.

Á fundinum var kynnt ný ensk útgáfa lagsins, „Into The Light“, sem er ætlað að sýna betur fram á líkindi Söknuðar og lagsins „You Raise Me Up“, sem er þekktast í flutningi Grobans. Á fundinum var kynnt sérfræðiálit sem unnið var fyrir STEF þar sem tónskylt efni laganna er metið allt að 97%.

Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs sagði mikla hagsmuni í húfi fyrir Jóhann vegna málsins í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2. „Það er ljóst að ef það yrði dæmt að hann eigi hluta af laginu „You Raise Me Up“, þá hefur hann í langan tíma farið á mis við mjög miklar höfundarréttargreiðslur.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Svona hljómar „Söknuður“ Jóhanns á ensku

Tónlist

Máðar línur stuldar og innblásturs