Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sögusagnir um að mágur agíteri á Borgarfirði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Á Borgarfirði eystra er svokölluð óhlutbundin kosning sem þýðir að allir íbúar á kjörskrá eru í framboði nema þeir sem skorast undan. Fyrir þessar kosningar skoraðist einn undan Ólafur A. Hallgrímsson sjómaður en hann hefur setið í hreppsnefnd lengi. Aðalmenn í sveitarstjórn eftir síðustu kosningar voru Jakob Sigurðsson, Ólafur Hallgrímsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Jón Þórðarson sveitarstjóri og Arngrímur Viðar Ásgeirsson.

Sjö skólabörn og fjórir skólastarfsmenn

Borgarfjörður eystri glímir ekki við skuldastöðu eins og mörg önnur sveitarfélög heldur fólksfækkun. Samkvæmt nýjustu talningu Hagstofunnar eru 116 með lögheimili í Borgarfjarðarhreppi en um 70 manns dvelja þar allt árið. Þar eru tvö börn í leikskóla, og þrjú börn í grunnskóla og að auki tvö aðkomin sem eru í tímabundnu fóstri. Í sameinuðum grunn og leikskóla eru fjórir starfsmenn þar af einn í hlutastarfi. Matvöruverslun var lokað þar í september. Enginn ríkisstarfsmaður er þar á launum eftir að hjúkrunarfræðingur í hálfu starfi flutti burt fyrir tæpum tveimur árum. Húsnæðisskortur hefur verið á Borgarfirði en fjölmargir brottfluttir eiga þar hús og nota sem sumarbústaði.

Samkaup vill ekki opna verslun undir eigin nafni

Borgarfjörður eystri hefur fengið inngöngu í verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir, en á borgarafundi sem haldin var í vetur var efst á forgangslistanum að verslun opni á staðnum á ný. Alda Marín Kristinsdóttir, verkefnisstjóri Borgarfirði, segir að leitað hafi verið til Samkaupa um möguleika á að fyrirtækið opnaði verslun en það hafi ekki gengið eftir. Nú ætli heimamenn að stofna félag og opna eigin verslun.

Vatnsverksmiðja gæti skapað störf

Indverski fjárfestirinn Pawan Mulkikar hefur í hyggju að reisa átöppunarverksmiðju á Borgarfirði og selja þaðan lúxusvatn. Sveitarsjóður hefur lagt í nokkurn kostnað við að breyta skipulag vegna verksmiðjunnar. Arngrímur Viðar Ásgeirsson hvatamaður að verkefninu segir að ekkert bakslag sé komið í verkefnið en allt taki mun lengri tíma en reiknað var með.  Skipulagsstofnun hafi til að mynda ekki enn samþykkt lóðina undir verksmiðjuna. Þar gætu orðið til 6-8 störf.

Sameining góð fyrir börnin

Eitt af því sem þeir sem veljast í sveitarstjórn á Borgarfirði þurfa að vinna með  eftir kosningar er möguleg sameining við Fljótsdalshérað og hugsanlega önnur sveitarfélög. Í nýlegri skoðanakönnun var meirihluti íbúa á Borgarfirði, Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði og Djúpavogi jákvæður í garð sameininga.

Jakob Sigurðsson, oddviti Borgarfjarðarhrepps, sagði í fréttum RÚV eftir að niðurstaða könnunarinnar lá fyrir að það væri tímaspursmál hvenær Borgarfjörður sameinaðist öðru sveitarfélagi. Með sameiningu gætu börnin farið í skóla á Héraði til tilbreytingar ákveðna daga. „Þetta er bara orðinn svo fámennur skóli hjá okkur og betra fyrir börnin að geta verið með fleiri og kynnst fleirum,“ sagði Jakob. Á Borgarfirði eru engin skólagjöld í leikskóla eða tónlistarskóla og skólamáltíðir eru ókeypis.

Mikil umferð um Borgarfjarðarveg

Til Borgarfjarðar kemur mikill fjöldi fólks til að skoða lunda og annað fuglalíf í Hafnarhólma. Þar er nú verið að byggja þjónustuhús fyrir ferðamenn og sjómenn. Dyrfjöll, Stórurð (sem telst reyndar til Fljótsdalshéraðs) og gönguleiðir um Víknaslóðir hafa einnig mikið aðdráttarafl. Þar er tónlistarhátíðin Bræðslan haldin í júlí á hverju ári og laðar mörg þúsund manns í fjörðinn. Borgfirðingar þykja gáskafullir og uppátækjasamir en þeir halda stundum aukajól á sumri og yfir hásumarið er þétt tónleikadagskrá í Fjarðarborg. Mikil umferð er um lélegan veginn þangað og hafa Borgfirðingar barist fyrir vegabótum. Sú barátta hefur borið árangur því 220 milljónir fara í veginn á þessu ári. Þá eru miklar vonir bundnar við verkefni Byggðastofnunar Brothættar byggðir en því fylgja styrkir til að hrinda hugmyndum heimamanna í framkvæmd.

Mágur ónefnds manns

Helgi Hlynur Ásgrímsson sem á sæti í hreppsnefnd segir að þeir sem lendi einu sinni þar inn detti ógjarnan út  aftur nema þeir skorist undan. Fólk vilji gjarna kjósa þá sem hafi setið áður. Í sameiningarkönnuninni hafi þó komið í ljós talsverður áhugi á sveitarstjórnarmálum á Borgarfirði og 11 svarendur hafi sagst vilja starfa í sveitarstjórn. Hann hafi þó ekki orðið var við neina kosningabaráttu af þeirra hálfu og það væri æskilegt að fólkið gæfi sig fram. Hann hafi aðeins heyrt að verið væri að vinna í einum manni. „Mágur þessa tiltekna manns hefur verið að agítera fyrir honum. En mér hefur þótt þetta vera vandamál lengi að menn láta það ekki uppi hafi menn áhuga á þessu. Því fór sem fór síðast, það voru bara kosnir karlmenn. Ég verð fimmtugur á næsta ári og ég er rödd unga fólksins,“ segir Helgi. Hann segist vona að yngra fólk komi inn í hreppsnefnd núna.