Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sögusagnir í Georgíu um gott líf á Íslandi

20.12.2017 - 22:44
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Það eru fyrst og fremst efnahagslegar ástæður sem knýja Georgíumenn til að leita hælis hér á landi og víðar í vestur Evrópu segir Íslendingur sem býr og starfar í Georgíu. Sögur gangi að hér sé vinnu að hafa, sterkt velferðarkerfi og hér sé auðvelt að setjast að.

Það sem af er ári hafa ríflega þúsund manns óskað eftir vernd eða hæli hér á landi, flestir frá Georgíu eða 286. Langflestir Georgíumennirnir hafa komið á seinni hluta ársins. Þetta er ekki bundið við Ísland því þessi þróun sést víðar í vestur Evrópu. Magnús Geir Eyjólfsson, starfsmaður NATO í Georgíu, segir skýringanna að leita í breyttum reglum um vegabréfsáritanir: „Það sem gerist núna er að í lok mars tekur gildi samningur sem veitir Georgíubúum frelsi til að ferðast innan Schengen svæðisins án vegabréfsáritunar. Fram að því hefur þurft vegabréfsáritun fyrir hvert land fyrir sig. En núna fá þau 90 daga á hverju 180 dagatímabili til að ferðast frjálst innan Schengen.“

Aðstæður í Georgíu almennt góðar en þó talsverð fátækt

Georgía er skilgreint sem öruggt ríki og Magnús Geir segir aðstæður þar ekki slæmar: „Það hafa orðið miklar lýðræðisumbætur í Georgíu undanfarin 15 ár og það er ekki hægt að tala um að neinn einstakur hópur sé ofsóttur þannig að það eru fyrst og fremst efnahagslegar ástæður sem knýr þetta fólk áfram“. Atvinnuleysi er þó mikið og fátækt útbreydd. „Aðstæður í Tblisi eru þokkalegar en utan borgarinnar er mikil fátækt, sérstalega í þorpum og annað. Svo var stór hópur flóttafólks hrakinn frá heimilum sínum í stríðinu 2008 frá Abkasíu og Suður Ossetíu. Þetta er hópur sem hefur lítið við að vera.“

Sögusagnir um að auðvelt sé að setjast að á Íslandi

Hann segir að sögusagnir séu um gull og græna skóga á Íslandi: „Við höfum svolítið verið að skoða hvað það er sem knýr þau til að fara. Við sjáum á spjallborðum og öðru að fólk sækir hingað vegna þess að hér er vinna, sterkt velferðarkerfi og samkvæmt því sem þarna kemur fram er auðvelt að setjast hér að.“ 
 

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV