Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Söguleg stund að fá lyklana að ríkiskassanum“

11.01.2017 - 16:14
Mynd: Skjáskot / RÚv
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, hafði ekki fyrr tekið við lyklunum í forsætisráðuneytinu en að hann þurfti að skila lyklunum að skrifstofu fjármálaráðherra. Þar beið hans Benedikt Jóhannesson og Bjarni sagði að það yrði sameiginlegt verkefni þeirra að viðhalda „þessum góðu ytri aðstæðum“ í íslenskum efnahagsmálum.

Bjarni sagði ráðuneytið stórt með fjölmennu starfsfólki. „Það sést á þingmálaskrá að þetta er afkastamikið ráðuneyti en þar eru líka stór og mikilvæg mál eins og á við í öllum ráðuneytum.“ Hann sagði að það áraði vel en áréttaði að það væri vandasamt að búa við hagfelld skilyrði - það yrði sameiginlegt verkefni þeirra að takast á við það.

Benedikt sagðist hlakka til að takast á við þetta verkefni - hann væri fullur tilhlökkunar en um leið meðvitaður að þessu starfi fylgdi mikil ábyrgð. „Þetta er líka söguleg stund fyrir mig að fá afhentan lykilinn að ríkiskassanum og ég skal gera mitt besta til að gæta hans vel.“

Benedikt sagði það vera fyrsta verkefni sitt að skipa fólk til að endurskoða peningastefnuna, svo væri það ríkisfjármálaáætlunin og loks nokkur mál sem þyrfti að forgangsraða. „En fyrsta verkefnið á morgun verður að fara um ganga ráðuneytisins og hitta fólk.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV