Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Söguleg átök í Jemen

26.03.2015 - 16:29
Mynd: EPA / EPA
Átökin í Jemen eru komin á nýtt stig eftir að tíu þjóða bandalag, undir forystu Sádi-Arabíu, hóf loftárásir á sveitir Hútí-fylkingarinnar sem ræður stórum hluta landsins. Ríkisstjórn Írans, sem styður húta, hótar öllu illu og segir að Sádi-Aröbum muni hefnast fyrir íhlutun sína í Jemen.

Jemen er stórt en fátækt land á sunnanverðum Arabíuskaganum. Landinu var skipt á milli Tyrkjaveldis og Bretlands í upphafi tuttugustu aldar. Sérstakt ríki var stofnað í norðurhlutanum eftir fyrri heimstyrjöldina en Suður-Jemen var verndarsvæði Breta til 1967. Ríkin tvö voru svo sameinuð 1990. Hútar eru sítar frá norðurhluta landsins. Þeir náðu höfuðborginni á sitt vald í vetur og þvinguðu forsetann Hadi til að segja af sér, meðal annars í krafti fjármagns og vopna frá Íran. Hann flúði síðar til hafnarborgarinnar Aden sem er næststærsta borg landsins og hútar hafa lagt sífellt stærra landssvæði undir sig.

Afskipti Ísraels og Egyptalands af innanlandsátökum

Trúarleiðtoganum al-Badr var steypt af stóli í Norður-Jemen 1962 en næstu sex árin barðist hann með ættbálkahöfðingjum í norðurhluta landsins gegn sjötíu þúsund manna herliði frá Egyptalandi sem studdi nýja lýðveldið. Skortur á vopnum og vistum háði baráttu trúarleiðtogans en hjálp barst úr óvæntri átt, frá Ísrael. Frá 1964 til 1966 flutti Ísraelsher ógrynni vopna til ættbálkanna í norðri því sameiginlegur óvinur þeirra á þessum tíma var Egyptaland. Trúarleiðtoginn var meira að segja reiðubúinn að viðurkenna Ísraelsríki ef hann næði völdum. Ísrael hætti stuðningi sínum, al Badr tapaði borgarastríðinu og ættflokkarnir sömdu um vopnahlé en voru áhrifalitlir næstu áratugi.

Íran og Sádi-Arabía blanda sér í innanlandsdeilur

Uppreisn húta er hluti af innanlandsdeilum sem eiga sér langa forsögu. Ættbálkarnir í norðri hafa lengi barist fyrir breyttu samfélagi og hafa nú sameinast í þeirri baráttu. Hinn brottflúni forseti Hadi er hins vegar af byltingarkynslóðinni sem ráðið hefur ríkjum allt frá 1962. Þetta er því fyrst og fremst innanlandsófriður og barátta um áhrif og völd. Hútar eru Saydi-sítar sem eru um fjörutíu prósent af tuttugu og þremur milljónum landsmanna. Saydar eru næstfjölmennasta grein síta og ekki sú sama og hin fjölmennasta sem er ráðandi í Íran. Meirihluti landsmanna eru súnnítar en öldum saman skiptist landið í raun milli síta í norðri og súnníta í suðri. Eftir því sem átökin hafa harðnað hafa Íranar aukið stuðning sinn við húta og Sádi-Arabía og bandalagsríki þeirra stutt við bakið á súnnítunum.

Allt of mikið gert úr áhrifum Írana

Á Vesturlöndum er þessu gjarnan stillt upp sem átökum milli síta og Írans gegn súnnítum og Sádi-Arabíu. Asher Orkaby segir í Foreign Affairs að það sé mikil einföldun. Uppreisn húta og fall stjórnarinnar megi rekja til baráttu milli lýðveldissinna og ættasamfélags. Allt of mikið sé gert úr áhrifum Írana. Ættflokkarnir í norðri hafi öldum saman verið eitt sterkasta aflið í landinu og ekki beri að líta á uppreisn þeirra sem trúarbyltingu sem stjórnað sé frá Íran. Forsetinn Hadi eigi sér fáa fylgismenn eins og glöggt hafi komið fram á síðustu mánuðum. Hútar eru ekki eina þjóðernishreyfingin sem náð hefur vinsældum síðustu áratugi. Al-Hrak sem berst fyrir sjálfstæði Suður-Jemens hefur mikið fylgi í suðurhluta landsins. Leiðtogar þessara tveggja hópa hafa fundað nokkrum sinnum og jafnvel hefur verið rætt um að þeir vilji semja um skiptingu landsins eða myndun ríkjasambands.

Sádi-Arabar hafa deilt og drottnað í Jemen

Staða Sádi-Arabíu er flókin. Sameiginleg landamæri þessara tveggja ríkja eru gríðarstór og innan Sádi-Arabíu eru stór landsvæði með Saydi-sítum eftir að þeir innlimuðu þau á fjórða áratug síðustu aldar. Átök í Jemen geta mjög auðveldlega breyðst út til Sádi-Arabíu. Sádi-Arabar hafa löngum deilt og drottnað í Jemen. Þeir voru til að mynda helstu stuðningmenn Húta á sjöunda áratugnum í baráttu þeirra gegn stjórnvöldum en studdu svo stjörnvöld í stríðinu gegn hútum árið 2004. Ekki má heldur gleyma því að hútar eru helstu andstæðingar Al Kaída sem hafa styrkt stöðu sína á Arabíuskaganum að undanförnu, stundum í samráði við Íslamska ríkið. Ógn við stöðugleika á Arabíuskaganum kemur frá þessum samtökum en ekki Hútum, segir í Foreign Affairs.

Vinsæl hreyfing sem vill endurvekja ættbálkaveldið

Frá sjöunda áratugnum hefur engin hreyfing náð jafn miklum vinsældum í Jemen og hútar og þeir hafa sýnt mikla tækifærismennsku. Þeir hafa ýmist notið stuðnings frá Ísrael, Bretlandi, Sádi-Arabíu eða Jórdaníu og nú hafa þeir snúið sér til Írans.  Þeir berjast gegn spillingu, fyrir jafnrétti og öryggi borgaranna og það hefur aukið á vinsældir þeirra meðal landsmanna. Hútí-fylkingin er einfaldlega bandalag ættbálka sem vilja velta þeim stjörnvöldum sem ráðið hafa ríkjum frá 1962 og endurvekja ættbálkaveldið.

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV