
Sofnaði og festist inni í rútunni
Hanna Pethani er frá Sydney í Ástralíu. Hún kom til Íslands frá London í gærkvöldi og ætlar að ferðast um landið fram á laugardag. Hún tók rútu frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur en var örþreytt eftir ferðalagið.
„Ég sofnaði og vaknaði ekki við það þegar farþegunum var hleypt út,“ segir Pethani. Hún hafi því haldið áfram með rútunni á leiðarenda. „Bílstjórinn sá mig ekki, fór út og lokaði á eftir sér. Þegar ég vaknaði var klukkan hálftvö um nótt, það var kolniðamyrkur og ég var læst inni í rútunni þar sem þær eru geymdar á nóttunni.“ Hún var stödd á athafnasvæði rútufyrirtækisins Gray Line í Klettagörðum við Sundahöfn.
„Ég varð mjög hrædd. Ég tapaði mér eiginlega – ég vissi ekkert hvernig ég ætti að komast út. Ég lamdi á hurðina og öskraði eftir aðstoð án árangurs. Ég var búinn hrópa á hjálp og fálma í myrkrinu í upp undir hálftíma þegar ég fann neyðarhandfang sem ég gat togað í og þá opnuðust dyrnar,“ segir Pethani.
Hún hafi farið inn í hús við hliðina á rútustæðinu og þar hafi hún fundið bílstjórann að snæðingi. Hann hafi síðan skutlað henni á réttan stað. Þótt henni hafi ekki verið skemmt í nótt getur hún hlegið að öllu saman núna og segir háðslega að þetta hafi verið góð byrjun á Íslandsheimsókninni. Næst á dagskrá er tveggja daga ferðalag um Suðurland. „Ég vona að þeir læsi mig ekki inni í neinum rútum þar,“ segir hún hlæjandi.