Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sofandi farþegi aldrei áður gleymst í rútu

18.04.2017 - 15:17
Mynd með færslu
 Mynd:
„Okkur finnst mjög leiðinlegt að þetta hafi gerst,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forstjóri Gray Line á Íslandi, um ástralska konu sem gleymdist sofandi í rútu fyrirtækisins í Klettagörðum í nótt og læstist þar inni. Atvikið sé áminning um það hversu mikilvægt sé að fylgja öllum verkferlum til hins ýtrasta.

Þórdís Lóa segist hafa sett sig í samband við konuna eftir að RÚV greindi frá málinu í hádeginu. „Ég er búin að tala við hana og biðja hana afsökunar. Hún var nú bara létt og kát. Við buðum henni að hún gæti farið með okkur í einhverjar ferðir ef hún vildi en hún var bara hress á leið að skoða Jökulsárlón,“ segir Þórdís Lóa.

Hún segir að reynt sé með öllum ráðum að tryggja að svona nokkuð gerist ekki. Í rútunni sé fólki kynnt rækilega hvert það eigi að fara eftir komuna á aðalrútustöðina í Holtagörðum, yfirleitt þurfi fólk þá að fara í smærri bíl sem keyri það heim á hótel. „En hún sefur svona vel aftast í rútunni blessuð konan og verður ekki vör við neitt,“ segir Þórdís Lóa. 

Fólk vaknar yfirleitt í skarkalanum

Hún segir að þetta hafi aldrei komið fyrir áður. „Það er mjög algengt að fólk sofni í rútunum, en yfirleitt vaknar það þá í skarkalanum sem fer af stað þegar við erum að koma inn í borgina,“ segir Þórdís Lóa, og á þá við tilkynningarnar í rútunni og umgang hjá fólki. 

Fólk sofi þessar tilkynningar í rútunni einstaka sinnum af sér. „En vanalega pikka þá aðrir farþegar í viðkomandi eða þá að bílstjórinn sér þann sem sefur þegar hann skoðar aftur í rútuna. Í versta falli ætti þetta að koma í ljós þegar bílstjórinn fer að stemma af farþega og farangur,“ segir Þórdís Lóa.

„En hann gerði það greinilega ekki og það misfórst að sjá konuna.“ Hún hafði þá sigið niður í sætið og hvarf þar með sjónum bílstjórans. Auk þess hafi taskan hennar verið tekin úr rútunni og sett í réttan bíl áður en rútan fór heim í bækistöðvarnar í Klettagörðum.

„Við hörmum svona“

Konan lýsti því í samtali við fréttastofu í dag að hún hefði vaknað þar í niðamyrkri og orðið mjög skelkuð. Hún hafi barið á hurðina og öskrað á hjálp og ekki fundið neyðarhandfang sem opnaði dyrnar fyrr en eftir um hálftíma fálm í myrkrinu.

Þá fór hún inn í húsið við hliðina á rútustæðinu. „Þar var tekið vel á móti henni. Við erum með vakt þar allan sólarhringinn þannig að hún kom ekki að auðum kofanum þar,“ segir Þórdís Lóa. Konunni hafi því næst verið komið á réttan leiðarenda.

„Við hörmum svona. Þjónustuflæðilínan okkar á að virka vel og hún virkar í 99,9% tilfella. En hún klikkar þarna og það áminning um að við fylgjum þeim ferlum sem við höfum komið okkur upp,“ segir Þórdís Lóa.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV