Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sobchak herðir sóknina gegn Pútín

02.12.2017 - 21:01
epa06363715 Russian TV host Ksenia Sobchak, daughter of the late Russian politician Anatoly Sobchak, shakes hands with supporters and citizens during her meeting in St. Petersburg, Russia, 02 December 2017. Ksenia Sobchak on 18 October 2017 announced her
Ksenia Sobchak á fundi með stuðningsfólki. Mynd: EPA-EFE - EPA
Ksenia Sobchak, forsetaframbjóðandi í Rússlandi, opnaði fyrstu kosningaskrifstofu sína utan Moskvu í vikunni, í borginni Rostov, stærstu borginni í suðurhluta landsins. Sobchak er 36 ára gömul og þekkt í Rússlandi fyrir störf sín í fjölmiðlum.

Hún ætlar að opna fimmtíu kosningaskrifstofur víðs vegar um landið. Nokkrir íbúar húss, sem brann í ágúst, komu að hitta Sobchak við opnunina í Rostov og sögðu henni frá grunsemdum sínum um að borgaryfirvöld hafi átt hlutdeild í eldsvoðanum í húsinu sem stóð á verðmætu byggingarlandi. New York Times greinir frá.

„Það er ótrúlegt að borgarstjórinn sé ekki hér að ræða við fólkið sem missti heimili sín í eldsvoðanum,“ sagði hún í samtali við blaðamenn. „Eitthvað þessu líkt gerist bara í Rússlandi af því að yfirvöld eru alltaf þau sömu. Mig langar að þessi mál verði hluti af umræðunni um það hvað þarf að lagfæra í Rússlandi,“ sagði hún.

Forsetakosningar fara fram í Rússlandi í mars á næsta ári. Vladimír Pútín hefur ekki tilkynnt hvort hann bjóði sig fram á ný. Búist er við að hann tilkynni um framboð sitt síðar í þessum mánuði. Það er ekki fyrir hver sem er að bjóða sig fram til forseta í Rússlandi því að frambjóðendur þurfa að safna 300.000 undirskriftum íbúa um allt landið. Ýmsar aðrar hindranir eru í veginum og því algengt að frambjóðendur heltist úr lestinni.

25 frambjóðendur hafa tilkynnt um framboð sitt. Sobchak er einna þekktust þeirra. Hún er þekkt fyrir störf í fjölmiðlum og baráttu fyrir mannréttindum. Yfir 5.3 milljónir fylgja henni á Instagram og yfir 1.6 milljón á Twitter.

Sobchak er dóttir fyrrum borgarstjóra Sankti-Pétursborgar sem var nokkurs konar lærifaðir Pútíns á hans yngri árum. Því hefur verið haldið fram að Sobchak hafi verið valin af yfirvöldum í Kreml til að bjóða sig fram til að gera ásýnd kosninganna frjálslyndari. Hún hefur neitað öllu slíku.

New York Times greinir frá því að Sobchak hafi rætt opinberlega um ýmis mál sem ekki fer mikið fyrir í umræðunni í Rússlandi, svo sem um pólitíska fanga, mengun, spillta dómara, og forsendur að baki hernaði Rússa í Sýrlandi og Úkraínu. Hún hefur sagt að hún geri sér grein fyrir því að möguleikar hennar á sigri séu ekki miklir. „Auðvitað vil ég vinna og verða forseti en ég vil líka vera hreinskilin. Aðeins Pútín getur unnið í kerfi sem hann sjálfur skapaði. Ég er raunsæ varðandi það hver verður forseti.“