Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Snýst um kærleika en ekki fjármagn

24.01.2016 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kári Stefánsson segir fjármögnun heilbrigðiskerfisins snúast um kærleika. 32 þúsund manns hafa tveimur sólarhringum ritað nafn sitt við áskorun hans til stjórnvalda. Hún er á þá leið að ríkið auki framlag sitt til heilbrigðismála, sem hlutfall af landsframleiðslu, úr 8,7% í 11%. Sem er sama hlutfall og í Svíþjóð.

Fyrir Kára snýst málið ekki eingöngu um tölur og hlutfall. „Fyrir mér er þetta að vissu leiti spurning um hversu mikilsráðandi við viljum að kærleikur sé í íslensku samfélagi. Mér finnst eins og samfélag hljóti að setja sér það markmið að geta hlúið að þeim sem eru lasnir og meiddir. Mér finnst að það eigi að vera algjört forgangsatriði.“

Kári gefur ekki mikið fyrir rök um að fé skorti. Fjármagna eigi heilbrigðiskerfið fyrst með viðeigandi hætti og skipta síðan kökunni. „Þegar þú tekur þá ákvörðun, á fé eigi ekki að fara í heilbrigðiskerfið heldur eitthvað annað, ertu að sætta þig við það að fólk deyi fyrir aldur fram frekar á Íslandi heldur en annars staðar.“

Þetta sé ekki spurning um hvort heldur hvernig. „Við hljótum að bæta heilbrigðiskerfið, við hljótum að gera það kraftmeira og við hljótum að koma heilbrigðiskerfinu á þann stall að það sé jafn gott eða betra en í löndunum í kringum okkar.“

Kári segist ekki gera sér grein fyrir hvort draga muni úr undirskriftum á næstu dögum en viðbrögðin sýni að hann sé ekki einn á þessari skoðun. Aðspurður hvers vegna sé ekki hægt að sjá fjölda undirskrifta á vefnum endurreisn.is segir Kári;

„Nú spyrðu mann sem fæddist á fyrri helmingi síðustu aldar og veit svo lítið um svona teknologiu að það er ekki einu sinni fyndið. Ég skal spyrja þá sem mér eru flinkari í þessu hvort ekki sé hægt að finna ráð. Svo hægt sé að horfa á þetta gerast.“

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV