Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Snýst ekki aðeins um bætur, líka viðurkenningu

11.04.2019 - 18:19
Halldór Þormar Halldórsson, umsjónarmaður sanngirnisbóta. - Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason / RÚV
Fatlaðir sem voru vistaðir sem börn á tilteknum vistheimilum fá greiddar sanngirnisbætur. Umsjónarmaður sanngirnisbóta, Halldór Þormar Halldórsson, segir að eðlilegt væri að greiða líka þeim sem voru vistaðir á fullorðinsaldri.

Um 1.200 manns hafa fengið greiddar sanngirnisbætur eftir að hafa sætt illri meðferð á stofnunum eða heimilum á vegum ríkisins undanfarna áratugi. Samkvæmt lögum um bæturnar gátu þó aðeins þeir sem voru vistaðir sem börn, á ákveðnum heimilum, átt rétt á bótum. Fjöldi fólks fékk engar bætur, fólk sem var utan skilgreiningar laganna, var vistað á öðrum heimilum eða vistað þar á fullorðinsaldri. Nú er í  undirbúningi lagafrumvarp um sanngirnisbætur til fatlaðra barna sem vistuð voru á heimilum á vegum hins opinbera. 

Halldór Þormar segir mjög ánægjulegt að þetta skref hafi verið stigið. „Við megum ekki gleyma því að þetta snýst ekki allt um peninga eða bætur, heldur snýst þetta líka um viðurkenningu á ákveðinni framkomu sem fólk varð fyrir, að það hafi sætt misgjörðum sem hafa ekki verið viðurkenndar fram að þessu,“ segir hann.

Í fyrra fjallaði fréttastofa um mál þeirra Ólafs Hafsteins Einarssonar og Guðbrands Magnússonar, sem báðir voru vistaðir í fangelsinu að Bitru, ásamt fleirum. Líklegt er að hvorugur þeirra falli undir lögin, enda voru þeir báðir orðnir fullorðnir þegar þeir voru vistaðir þar. Í Kveik á þriðjudag var svo sagt frá Margréti Esther Erludóttur, sem fellur líklega ekki undir þau heldur. Hún var vistuð á einkaheimilum þegar hún var barn og á sambýli við Njörvasund þegar hún var orðin fullorðin. 

Halldór segir að eðlilegt væri að horfa líka til þeirra sem voru vistaðir á fullorðinsaldri. „Vegna þess að þótt hafi verið miðað við það í sanngirnisbótum í upphafi að þetta væru einstaklingar sem réðu ekki dvalarstað sínum heldur hefði verið komið fyrir á ákveðnum stað, það miðaðist við lögræði þá þegar einstaklingurinn hætti að vera barn, auðvitað eru margir fatlaðir sem ráða ekki sínum dvalarstað sjálfir, heldur er þeim komið fyrir einhvers staðar þar sem þeir hafa ekki endilega vilja til að vera.“

Fréttin var uppfærð klukkan 19:33: Áður sagði að Margrét Esther Erludóttir hafi verið vistuð á opinberum stofnunum eftir að hún var fullorðin. Rétt er að hún dvaldi á sambýli við Njörvasund.