Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Snowden boðar nýjar upplýsingar

18.06.2013 - 04:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Bandaríski uppgjafanjósnarinn, og uppljóstrarinn, Edward Snowden, segist hvergi hræddur þótt ráðamenn í Washington saki sig um landráð, og kalli sig flugumann Kínverja. Þetta sé fjarri sanni. Hann hafi afhjúpað stórhættulegar njósnir yfirvalda um almenna borgara.

 Í netviðtali við Guardian í dag boðar Snowden nýjar uppljóstranir um eftirlitskerfi Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, NSA.

Meðal þess sem mesta gremju hefur vakið eru uppljóstranir Snowdens um að netfyrirtæki og samskiptasíður, svo sem Facebook, Google og Microsoft, hafi veitt leyniþjónustumönnum vestan hafs aðgang að tölvupósti og öðrum einkasíðum manna.

Formælendur fyrirtækjanna segjast aðeins hafa gert þetta eftir dómsúrskurð, og þá í almennum sakamálum.

Þá hafa upplýsingar frá Snowden um að Bretar hafi njósnað um fulltrúa á leiðtogafundi 20 helstu efnahagsvelda heims, G-20 ríkjanna svonefndu, í Lundúnum 2009, vakið reiði í höfuðborgum þessara ríkja, og Bretar verið krafðir um skýringar á gjörðum sínum.

Barack Obama Bandaríkjaforseti varði njósnakerfi NSA í sjónvarpsviðtali í gær, ítrekaði að allt væri innan ramma laganna og undir eftirliti þingnefnda og dómstóla, fráleitt væri að bera þetta saman við hleranir og persónunjósnir í valdatíð George Bush, forvera síns.

Obama er væntanlegur til Þýskalands í dag. Vikuritið Der Spiegel spyr hver þar verði á ferð. Vinur, eða óvinur. Evrópusambandið verði að verja þegna sína fyrir þeirri þráhyggju Bandaríkjamanna að vilja vita allt um alla.