Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Snjöll glæpasaga um þöggun sem viðheldur valdi

Mynd: RÚV/samsett mynd / RÚV/samsett mynd

Snjöll glæpasaga um þöggun sem viðheldur valdi

10.12.2017 - 12:45

Höfundar

Í sinni nýjustu bók, Sakramentinu, leitast Ólafur Jóhann Ólafsson –undir sléttu yfirborði glæpasögunnar– við það að skoða hvernig valdi er viðhaldið með því að fela það sem ekki þolir dagsljósið.

Gauti Kristmannsson skrifar: 

Fyrir rétt rúmum fimm árum kom út skýrsla katólsku kirkjunnar á Íslandi um kynferðisofbeldi og margvíslega misbeitingu barna í Landakotsskóla á meðan skólastjórinn Ágúst Georg réð þar ríkjum, ásamt Margréti Müller sem kenndi við skólann. Sú hroðalega lesning og aðrar fregnir af ofbeldisverkum þeirra skötuhjúa eru vísast grunnurinn að skáldsögunni Sakramentið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Best er að undirstrika að sagan er skáldskapur, þótt hún nýti sér vitneskju okkar um þessa fremur nýliðnu afhjúpun, sem virðist bara vera hlekkur í hroðalegri keðju misneytingar á fólki um áratugi á Íslandi. Hún sýnir samt sem áður grundvöllinn að öllu þessu ofbeldi, en hann byggir á valdastöðu gerenda og vissu þeirra um að þeir komist upp með það sem þeir aðhafast og í tilfelli þeirra Georgs og Margrétar sluppu þau til dauðadags. Hann fékk meira að segja hina íslensku fálkaorðu árið 1994 og hefur vafalaust mörgum nemenda hans runnið kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þeir lásu fréttir af því. Þegar hann lést árið 2008 má segja að Margrét hafi fylgt honum því hún stytti sér aldur skömmu síðar með því að kasta sér út um glugga á turni kirkjunnar þar sem hún bjó. Börnin munu hafa verið að koma í skólann um það leyti.

Frásagnartöf flettir ofan af hroða

Snert hefur verið á þessu söguefni áður, Steinar Bragi ritaði um skötuhjúin í draugasögusafni sínu Reimleikar í Reykjavík, og fékk meira að segja miðil til að fá frekari botn í þær sögusagnir.  Saga Ólafs Jóhanns er allt annars eðlis, hún er í raun og veru sakamálasaga, svolítið upp á gamla móðinn, en með nokkuð nýstárlegum brögðum, bæði í persónum og frásagnarhætti. Sögumaður er katólsk nunna og er hún í hlutverki hins klassíska rannsakanda, sem kom fyrst fram í sögu Edgars Allans Poes, Morðin í Rue Morgue, en þar kynnumst við slyngum manni sem leysir furðulegt morðmál í samræðu við meðreiðarsvein sinn og sögumann, líkt og Arthur Conan Doyle gerði síðar með Holmes og Watson. Munurinn hér er fyrst og fremst sá að meðreiðarsveinn systir Jóhönnu Maríu er ekki sögumaður, heldur hún sjálf, og aðferðin við að leysa málið byggir ekki á rökrænni afleiðslu heldur notar höfundurinn frásagnartöf á kunnáttusaman hátt til að fletta smám saman ofan af hroðanum og glæpnum í sögunni.

Þrír frásagnarstraumar

Þótt sagan sé ekki beinlínis unnin upp úr hinum raunverulegu atburðum sem lýst er í skýrslu kirkjunnar sem nefnd var hér í upphafi, þá beitir höfundur ýmsum smálegum vísunum, ekki síst í nöfnum á fígúrum sem eru ekki eins en fara svolítið nálægt hinum raunverulegu persónum sem voru á leiksviði veruleikans á sínum tíma. Sagan er hins vegar þétt ofin af umtalsverðri kunnáttu, enda er höfundurinn enginn nýgræðingur, og rekur hann hana í þremur megin frásagnarströngum; fyrstu persónu frásögn í nútíð, þar sem systir Jóhanna María er á leið til Íslands í annað sinn út af þeim málum sem um er að ræða, fyrstu persónu frásögn í þátíð þar sem fyrri ferðin er rakin og hin raunverulega rannsókn á málinu fór fram, og inn í þetta er blandað frásögn hennar af kynnum við íslenska konu á námsárum í París, en systir Jóhanna María varð ástfangin af henni, þótt hún hafi alla sína tíð verið inni í skápnum og enginn vitað um kynhneigð hennar nema einn valdakarl í kirkjunni, katólskur klerkur, Raffin að nafni, sem orðinn er kardínáli í síðasta frásagnarstranganum, sem er tímasettur árið 2009, rétt eftir andlát þeirra skötuhjúa í veruleikanum, þó ekki sé það þannig í sögunni.

Mætir andstöðu og þöggun hjá kirkjunnar mönnum

Höfundur blandar þannig forboðinni og bældri ást, sem þó er hrein og fölskvalaus, við hugmyndirnar um það afbrigðilega og grimmilega hátterni sem nunnan fær til rannsóknar á áttunda áratugnum þegar hún fer í sína fyrstu ferð til Íslands. Þar er hún með klassískan meðreiðarsvein í ungum manni sem ber nafnið Páll og stundum fannst mér þessi ferð minna á Kristnihald undir jökli Laxness, þar sem þau eru í hlutverki Umba og um leið Holmes og Watsons. Þessi hluti sögunnar er hryggjarstykki hennar að miklu leyti, það er í henni sem hin eiginlega rannsókn fer fram og söguhetjan mætir þar andstöðu og þöggun eins og þekkt er við rannsókn slíkra mála, þegar í hlut eiga stofnanir sem ekki vilja vamm sitt vita og berjast af afli gegn afhjúpunum sem gætu komið á þeim í klípu; í þessu tilfelli mætti segja að kirkjunnar menn hafi gleymt orðum Krists um að „sannleikurinn geri yður frjálsa“.

Valdið felur

Engu breytir þótt kirkjan sendi unga nunnu til að rannsaka málið, Raffin sendi hana einmitt af því að hann þekkti leyndarmál hennar og treystir því að hann geti stjórnað ungu konunni með vitneskju sinni, mjög klassískt bragð til að láta líta út fyrir að verið sé að gera eitthvað í máli sem síðan á að þagga niður. Hún verður að ólíklegri hetju í því að hún ögrar honum samt og grefur dýpra og dýpra uns hroðinn kemur í ljós. Rannsókn hennar endar á því að skólastjórinn í sögunni sem heitir þar Ágúst Frans fellur niður úr kirkjuturninum og það þegar á áttunda áratugnum þegar hún er á landinu í fyrra skiptið. Þar með er málinu lokið af hálfu kirkjunnar og skýrsla hennar endar undir stólnum fræga þar sem stórir rassar valdsins vilja hafa allt sem óþægilegt er. En eins og í öllum góðum glæpasögum eru snjallir snúningar í þessari sem ekki verða raktir hér, en segja má að höfundi takist með þéttum tökum á frásögninni að koma lesendum á óvart í lokin og er það í samræmi við allar hefðir í þessari bókmenntagrein.

Segja verður þó á hinn bóginn, að þrátt fyrir að frásögnin sé byggð á tækni glæpasögunnar, þá er ljóst að höfundur er skoða eitthvað meira en lausn á glæpamáli. Hver-gerði-það-þátturinn er nánast aukaatriði, eftirþanki, miklu fremur er hér leitast við að skoða hvernig farið er með vald og þöggun til að viðhalda valdi og fela það sem ekki þolir dagsljósið. Það er kannski erindi þessarar sögu sem líður fram undir hægu yfirborði slétts og fellds raunsæisprósa í anda glæpasögunnar. En undir því yfirborði ólgar órói yfir misneytingu og þöggun valdastofnana sem alltaf þurfa, en fá kannski sjaldnast, nægt aðhald.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Fantagóð bók frá Ólafi Jóhanni

Bókmenntir

Amazon og BBC ánægð með Ólaf Jóhann

Bókmenntir

Ekki til neins að fara á skjön við söguna

Bókmenntir

Eins og dópisti sem þarf á fixinu að halda