Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Snjóflóðið eins og skuggi

25.10.2015 - 20:58
Þann 26. október 1995 féll stórt snjóflóð á byggðina á Flateyri. Flóðið féll klukkan sjö mínútur yfir fjögur og voru því flestir íbúar í fastasvefni. Tuttugu manns létu lífið, tíu karlar, sex konur og fjögur börn. Enn fleiri misstu ástvini sína og heimili.

Snjóþyngslin höfðu ekki varað lengi þegar flóðið féll úr Skollahvilft með gífurlegum látum. Það gjöreyðilagði sautján hús en einungis þrjú þeirra voru innan hættusvæðis þess tíma.

Sóley Eríksdóttir var ellefu ára þegar snjóflóðið féll. Foreldrar hennar voru í Reykjavík og því var hún ein heima með systur sinni og kærasta hennar. Þau fórust bæði í flóðinu. Sóley beið þess í níu klukkustundir að sér yrði bjargað: „Það var þarna einhvern tímann að ég fór að heyra meiri hljóð. Svo opnast bara og það kemur lítið gat og ég sé andlit. Og það hrynur smá svona snjórinn. Og þetta var rosalega góð tilfinning og það sem eftir lifði dags var ég víst bara skælbrosandi.“

Snjóðflóðið hefur fylgt Sóleyju þessi tuttugu ár: „Ég finn að ef ég er að láta eins og þetta hafi ekki gerst þá kemur það aftan að mér. Þetta er eins og skuggi þarna. Ef maður reynir að gleyma honum þá kemur hann aftur og bankar í mann.“ Veðurhræðsla er einn þessara skugga: „Veturnir sem hafa verið undan farin ár þau hræða úr mér líftóruna. Ég gæti ekki búið þarna eins og veðrið er búið að vera, Snjóflóðið náttúrlega fellur þegar ég er sofandi upp í rúmi. Ef ég ligg og er upp í rúmi, þá kemur veðurhræðslan, ég er fínu lagi ef ég er vakandi,“ segir Sóley.

Sóley hefur unnið mikið úr áfalli sínu. Hún vinnur nú að bók þar sem hún hefur safnað minningum fjölskyldu sinnar og annarra Flateyringa sem lentu í flóðinu: „Eftir að hafa lent í þessu flóði er maður svo meðvitaður um dauðleikann. Ef maður vill skrifa eitthvað þá verður maður að koma því út. Þessar sögur verða að vera til fyrir næstu kynslóðir.“

Föðurbróðir Sóleyjar, Guðjón Guðmundsson, bjó við sömu götu og fjölskylda Sóleyjar, Unnarstíg: „Þeir voru þarna tveir bræður mínir hinum megin við götuna. Eitt skemmdist mikið og hitt fylltist af snjó. Og frændi okkar við hliðina á mér. Reyndar er eitt sem að stendur ennþá, af þessum fjórum húsum.“

Fjölskylda Guðjóns ákvað að halda aftur vestur og byggja þar nýtt hús. Hann er einn fárra sem lentu í flóðinu, sem enn býr á Flateyri: „Við veltum þessu fyrir okkur þarna um vorið og veturinn. Og reyndar eftir að við komum hingað aftur. En þetta var niðurstaðan. Okkur hefur liðið vel hérna.“

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður