Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Snjóflóð kaffærði mannvirki í Skútudal

04.02.2013 - 19:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Stórt snjóflóð féll á mannvirki Hitaveitu Siglufjarðar í Skútudal fyrir helgi og færði dæluhús veitunnar í kaf. Litlar skemmdir urðu enda húsin sérstaklega byggð til að standast snjóflóð.

Í Skútudal ofan Siglufjarðar eru starfsmenn RARIK að huga að mannvirkjum Hitaveitu Siglufjarðar. Snjóflóð hefur fallið úr austurhlíðum dalsins og kaffært tvö af dæluhúsum hitaveitunnar. Þeir hafa kallað til snjótroðarann af skíðasvæði Siglfirðinga til að moka niður á húsin eftir að hafa staðsett þau undir flóðinu.

Það er algengt að það falli snjóflóð á Skútudal enda mannvirkin byggð til þess að standast snjóflóð. En þetta flóð var í stærra lagi. Snjóflóðið er allt að fjögurra metra þykkt og það tekur dágóða stund að komast niður að húsunum. En að lokum opnast lítil hola og þarna undir er annað dæluhúsið. Þeir ákveða að moka ekki neðar heldur skella sér niður í holuna. Það er orðið ansi heitt inni í húsinu og eftir stutta eftirlitsferð er ljóst að dælubúnaðurinn er óskemmdur. Og svona verður skilið við þetta hús. „Þetta fyllist strax af snjó. Við merkjum staðinn og gröfum holu niður og förum svoleiðis inn,“ segir Árni Skarphéðinsson, verkstjóri hjá RARIK. 

Ofan á hinu húsinu var heldur minni snjór.  Þar var hreinsað alveg frá dyrunum og þarna inni reyndist sömuleiðis allt óskaddað. „Þetta er bara allt í góðu og ekkert skemmt nema bara útiljós,“ segir Árni.