Snjalltæki: Hvernig mörk á að setja?

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki hafa verið skilgreind opinber viðmið hér á landi um skjátíma barna á grunnskólaaldri. Ólíkar skoðanir eru um hvers konar mörk skuli setja notkuninni og á hvaða forsendum. Félagsráðgjafi segir marga foreldra óörugga gagnvart því hvernig skuli taka á snjalltækjanotkun barna.

Foreldrar áhyggjufullir og óöruggir

Hvað felst í því að setja börnum heilbrigð mörk? Margir foreldrar velta þessu fyrir sér enda snjalltæki út um allt.

„Við höfum fundið það í okkar starfi, þetta óöryggi, að vita ekki hvernig á að takast á við þetta,“ segir Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, félagsráðgjafi og þerapisti, hjá Þitt virði. Hún hefur sinnt börnum með skjávanda og ráðlagt foreldrum um skjánotkun. Margir séu áhyggjufullir. 

Tíminn skipti máli

Guðrún horfir til tímaviðmiða bandarísku Barnalæknasamtakanna.  „Það skiptir máli tíminn sem börn eyða við tölvu og skjái. Það er eitthvað sem er strax hægt að vinna með. Amerísku barnalæknasamtökin hafa til dæmis sett fram viðmið sem eru allt frá 45 mínútum upp í tvær klukkustundir, það fer eftir aldri barna.“ 

Unnið að því að skilgreina viðmið

Landlæknisembættið skilgreindi nýlega viðmið um skjánotkun barna undir fimm ára aldri. Þau eru keimlík viðmiðum bandarísku Barnalæknasamtakanna. Mælt er með því að börnum undir tveggja ára aldri sé haldið frá skjám nema þau séu að eiga í samskiptum við fjarstadda ættingja eða vini í gegnum myndspjall. Tveggja til fimm ára börn séu ekki lengur en klukkustund á dag í tækjum og alltaf með foreldrum.

Skjátími ekki það sama og skjátími

Starfshópur vinnur að því að skilgreina viðmið fyrir eldri börn. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá embættinu, segir að rannsóknir skorti en að í auknum mæli hafi verið horfið frá því að gefa út ákveðin tímaviðmið. Af því skjátími og skjátími er ekki það sama, það þarf að skoða þetta í víðara samhengi, skoða með ábyrgum hætti hvað er verið að gera við skjáinn.“

Erfitt að setja skýr tímamörk

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri landssamtaka Heimilis og skóla, segir erfitt að setja skýr tímamörk. „Af því að börn eru misjöfn, eins og fullorðnir. Það er misjafnt hvað þau eru að nota tímann í og misjafnt líka frá degi til dags út frá námi og öðru.“

Það séu þó bara 24 tímarí sólarhringnum, börn þurfi að borða, sofa, læra, hreyfa sig og eiga í samskiptum. Það sé því ekki þannig að eitt barn geti verið í tækjunum í hálftíma og annað í fimm.

Þá telur hún að það þurfi að huga sérstaklega að því hvað mjög ung börn séu mikið í tækjunum. „Hvernig þau eru að nota tækin og hvað þau eru að gera. Þau þurfa örvun, snertingu og samskipti við annað fólk, augliti til auglitis.“ 

Verkefni að kanna hvað börnin höndla

Björn Hjálmarsson, sérfræðilæknir hjá Bugl, telur að það sé verkefni fyrir foreldra á hverju heimili að kanna hversu mikið börn geti verið í tækjunum án þess að það bitni á heilsu þeirra, svefni, tengslum og líðan.

Guðrún Katrín hjá Þitt virði, horfir til þess að fyrirbyggja. Að foreldrar komi í veg fyrir að skjánotkun verði að vandamáli.

Börnin þekki eigin þolmörk

Þau sem fréttastofa hefur rætt við leggja öll áherslu á að hlutverk foreldra sé stórt, mikilvægt að þeir setji notkun barna sinna mörk og fylgist með henni. Þetta snúist um heilbrigðan lífstíl og hófsemi. Þá sé mikilvægt að börnin læri að stjórna eigin notkun, þekkja eigin þolmörk og ofnoti ekki skjána til að deyfa tilfinningar sínar. 

Fréttin hefur verið uppfærð. Ummæli Guðrúnar um mikilvægi þess að fyrirbyggja að vandi skapist eru nú ekki sett fram sem beint svar við ummælum Björns um að það sé verkefni á hverju heimili að kanna hvar mörk barna liggi. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi