Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Snjallsímabann til umræðu í borgarstjórn

06.03.2018 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd: Stocksnap - Pexels
Borgarstjórn Reykjavíkur ræðir á fundi sínum, sem stendur núna, tillögu Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa, um snjallsímabann í grunnskólum borgarinnar. Fjórir borgarfulltrúar hafa lýst yfir andstöðu við bannið. Umræðum er ekki lokið.

Tillaga Sveinbjargar hljóðar upp á að notkun allra snjallsíma verði bönnuð í grunnskólum í Reykjavík á skólatíma, hvort sem er í frímínútum eða í kennslustofum. Á fundinum benti Sveinbjörg á að snjalltækin væru ávanabindandi og að notkun þeirra geti valdið auknum kvíða og áhyggjum hjá börnum og ungmennum. 

Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar fagnaði umræðunni um notkun snjallsíma en kvaðst ekki geta stutt tillöguna. Ekki væri sanngjarnt að setja svo strangar kröfur fyrir börn og unglinga sem ekki gangi yfir annað fólk, til dæmis borgarfulltrúa. Hún lagði áherslu á að best væri fyrir börnin að foreldrar væru góðar fyrirmyndir þegar kemur að snjalltækjanotkun. Þá benti Kristín Soffía á að skólastjórnendur hafi vald til að setja reglur um símanotkun í skólum. 

Þórgnýr Thoroddsen, borgarfulltrúi Pírata, tók í sama streng og Kristín Soffía og sagði marga kennara setja reglur um notkun síma í skólastofum. Þá sé einnig hægt að nota símana á uppbyggilegan hátt, frekar eigi að kenna börnum að nota tækin skynsamlega en að setja bann. Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, fagnaði umræðunni um notkun snjallsíma en kvaðst ekki geta stutt slíkt bann. Sömu sögu er að segja af S. Birni Blöndal, fulltrúa Bjartrar framtíðar, hann styður ekki bannið.