
Snjallsímabann þokast áfram í Fjarðabyggð
Bæjarráð beindi því til fræðslunefndar í maí á þessu ári að það tæki afstöðu til þess að snjallsímanotkun barna og unglinga í grunnskólum Fjarðabyggðar yrði bönnuð frá og með næsta skólaári.
Bæjarráð kastaði fram þeirri hugmynd að nemendurnir mættu koma með símana í skólann en á meðan skólastarfi stæði yrði tækið eftir hjá skólaritara. Sveitarfélagið ætlaði á móti að fjárfesta í spjaldtölvum ef þess gerðist þörf vegna kennslu. „Rannsóknir sýna að aukin snjallsímanotkun barna hefur áhrif á andlega líðan barna og unglinga og eykur kvíða og þunglyndi,“ sagði í erindi bæjarráðs til fræðslunefndar.
Fræðslunefndin óskaði eftir upplýsingum frá skólastjórum og Skólaskrifstofu Austurland á notkun snjalltækja í skólum. Um miðjan mánuðinn bárust umsagnirnar ásamt áliti persónuverndarfulltrúa Fjarðabyggðar og tók nefndin sér tíma til að fara yfir kosti og galla snjallsímabanns.
Á fundi nefndarinnar í síðustu viku var niðurstaðan svo sú að æskilegast væri að auka snjalltækjakost grunnskólanna og að viðunandi búnaður yrði komin í skólana í byrjun næsta árs. Samhliða því yrði nemendum bannað að mæta með snjallsíma og önnur snjalltæki í skóla nema með sérstakri undanþágu frá skólastjóra.
Bæjarráð tók vel í snjallsímabannið á fundi sínum í gær en taldi bókun fræðslunefndarinnar óskýra og var málinu því vísað aftur í nefnd. Nefndinni var jafnframt falið að móta reglur um hvernig mætti framfylgja slíku banni.
Sitt sýnist hverjum um ágæti snjallsíma. Í fyrra bannaði danskur grunnskóli í Kaupmannahöfn nemendum sínum að vera með farsíma í skólanum. Formaður skólastjórnar skólans sagði símana draga úr löngun nemenda til að taka þátt í félagslífi og tala við aðra nemendur.
Frakkar hafa gengið hvað harðast fram gegn snjallsímunum. Algjört snjallsímabann tók gildi í frönskum almenningsskólum þegar þeir tóku til starfa eftir sumarleyfi í ár.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, talaði fyrir því á síðasta kjörtímabili að snjallsímar yrðu bannaðir í reykvískum grunnskólum. Sú tillaga var felld með 14 atkvæðum gegn einu.