Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Snjallsímabann þokast áfram í Fjarðabyggð

29.08.2018 - 19:53
epa05424117 Gamers play the Pokemon Go app on the Grote Markt in Haarlem, The Netherlands, in an image dated 13 July 2016. The game, that uses the GPS to locate the smartphone's location, has gained a huge popularity among smartphone users and added
 Mynd: EPA
Bæjarráð Fjarðabyggðar tók á fundi sínum í gær jákvætt í erindi fræðslunefndar sveitarfélagsins um að snjallsímar yrðu bannaðir í grunnskólum. Bæjarráð ákvað þó að vísa erindinu aftur til nefndarinnar þar sem tillagan um bannið þótti ekki nógu skýr. Þá var nefndinni falið að móta reglur um hvernig mætti framfylgja snjallsímabanni. Frakkar hafa bannað snjallsíma í almenningsskólum en borgarráð felldi slíka tillögu á síðasta ári.

Bæjarráð beindi því til fræðslunefndar í maí á þessu ári að það tæki afstöðu til þess að snjallsímanotkun barna og unglinga í grunnskólum Fjarðabyggðar yrði bönnuð frá og með næsta skólaári.

Bæjarráð kastaði fram þeirri hugmynd að nemendurnir mættu koma með símana í skólann en á meðan skólastarfi stæði yrði tækið eftir hjá skólaritara. Sveitarfélagið ætlaði á móti að fjárfesta í spjaldtölvum ef þess gerðist þörf vegna kennslu.  „Rannsóknir sýna að aukin snjallsímanotkun barna hefur áhrif á andlega líðan barna og unglinga og eykur kvíða og þunglyndi,“ sagði í erindi bæjarráðs til fræðslunefndar.

Fræðslunefndin óskaði eftir upplýsingum frá skólastjórum og Skólaskrifstofu Austurland á notkun snjalltækja í skólum. Um miðjan mánuðinn bárust  umsagnirnar ásamt áliti persónuverndarfulltrúa Fjarðabyggðar og tók nefndin sér tíma til að fara yfir kosti og galla snjallsímabanns. 

Á fundi nefndarinnar í síðustu viku var niðurstaðan svo sú að æskilegast væri að auka snjalltækjakost grunnskólanna og að viðunandi búnaður yrði komin í skólana í byrjun næsta árs. Samhliða því yrði nemendum bannað að mæta með snjallsíma og önnur snjalltæki í skóla nema með sérstakri undanþágu frá skólastjóra.

Bæjarráð tók vel í snjallsímabannið á fundi sínum í gær en taldi bókun fræðslunefndarinnar óskýra og var málinu því vísað aftur í nefnd. Nefndinni var jafnframt falið að móta reglur um hvernig mætti framfylgja slíku banni. 

Sitt sýnist hverjum um ágæti snjallsíma. Í fyrra bannaði danskur grunnskóli í Kaupmannahöfn nemendum sínum að vera með farsíma  í skólanum. Formaður skólastjórnar skólans sagði símana draga úr löngun nemenda til að taka þátt í félagslífi og tala við aðra nemendur.

Frakkar hafa gengið hvað harðast fram gegn snjallsímunum. Algjört snjallsímabann tók gildi í frönskum almenningsskólum þegar þeir tóku til starfa eftir sumarleyfi í ár.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, talaði fyrir því á síðasta kjörtímabili að snjallsímar yrðu bannaðir í reykvískum grunnskólum. Sú tillaga var felld með 14 atkvæðum gegn einu.