
„Snertir okkur öll þegar börn eiga í hlut“
Þrír létust í slysinu, tveir fullorðnir og eitt barn, og fjórir voru fluttir alvarlega slasaðir á slysadeild Landspítalans í Fossvogi með þyrlu Landhelgisgæslunnar, þar af tvö börn á aldrinum 7 til 9 ára. Í bílnum voru tvær fjölskyldur en fólkið var allt breskir ríkisborgarar af indverskum uppruna og hafa sendiráð Indlands og Bretlands á Íslandi veitt aðstoð vegna slyssins.
Auðbjörg Brynja segir í samtali við fréttastofu að það fyrsta sem þau gerðu þegar komið var á vettvang slyssins hafi verið að koma upplýsingum áleiðis um fjölda slasaða og áverka. „Og síðan var maður að átta sig á því hverjum maður myndi ná út og hlúa að þeim sem voru mikið slasaðir. Það var líka afskaplega kalt þarna á svæðinu og okkur vantaði hendur til að byrja með en síðan komu fleiri á vettvang og allir unnu sem ein vél. Því miður höfum við komið of oft saman í svona slysum en allir unnu vel saman.“
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sagði í svari til fréttastofu að viðbragðsaðilar hafi staðið sig eins og hetjur með „fumlausum og faglegum viðbrögðum við afar erfiðar aðstæður.“ Það hafi verið erfiður tími hjá þeim í upphafi þegar þau voru enn fáliðuð á vettvangi. „Engu að síður hafði það ekki úrslitaáhrif á lífsbjörg hinna slösuðu þó þau væru fá á slysstað í upphafi,“ segir Herdís.
Eiginmaður Auðbjargar var aðhlynningarstjóri á vettvangi og þau voru einnig fyrst á vettvang þegar alvarlegt rútuslys varð í Eldhrauni fyrir nákvæmlega ári þar sem einn kínverskur ferðamaður lést og annar skömmu síðar á sjúkrahúsi.
Fram kom í greinargerð Herdísar sem hún sendi fjölmiðlum að slysið hefði tekið mjög á þá sem þarna voru á vettvangi. „Það er ákaflega erfitt þegar verkefnið er mikið stærra en maður ræður við og það verður að segjast eins og er að þegar börn eiga í hlut þá snertir það okkur öll verulega mikið.“ Viðrunarfundur verður haldin fyrir viðbragðsaðila á Kirkjubæjarklaustri í kvöld og segir Auðbjörg það alltaf gert eftir svona viðburði. „Við hittumst og viðrum málin eftir svona og að sjálfsögðu býðst okkur handleiðsla ef einhverjir vilja eða þurfa.“