Snerist um ráðherrann, ekki ríkisstjórnina

07.03.2018 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna, sem greiddi atkvæði með vantrauststillögu á dómsmálaráðherra, segir að atkvæðagreiðslan hafi snúist um embættisfærslur ráðherrans, en ekki um ríkisstjórnina. Tvær þingkonur flokksins sögðust greiða atkvæði gegn tillögunni þar sem ella myndi ríkisstjórnin falla.

„Ógeðfellt að hlusta á hótanir“

Hart var deilt um vantrauststillögu Samfylkingar og Pírata á dómsmálaráðherra á Alþingi í gær. Þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku sumir óstinnt upp orð dómsmálaráðherra um atkvæðagreiðsluna. „Það verður í minnum haft hvernig menn greiða hér atkvæði á eftir,“ sagði Sigríður Á. Andersen í ræðustól Alþingis í gær. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði ákveðna hótun felast í þessu. „Mér finnst afar ógeðfellt að hlusta á hreinar og beinar hótanir, að mínu mati, af hálfu framkvæmdavaldsins úr pontu. Mér fannst það vera þannig í garð löggjafarvaldsins,“ sagði Þorgerður Katrín á Alþingi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigríður Á. Andersen á Alþingi í gær.

Starfa áfram innan þingflokksins

Tveir þingmenn ríkisstjórnarinnar greiddu atkvæði með tillögunni, þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir. „Ég hélt nokkrar ræður um embættisfærslur dómsmálaráðherra við skipan dómara í Landsrétt í júní á síðasta ári í þinginu og ég er bara á nákvæmlega sömu skoðun og þá, nema að auki hefur bæst við dómur í Hæstarétti, sem að staðfesti það að hún hafi ekki farið að lögum við skipan dómara í nýtt dómstig,“ segir Rósa Björk í samtali við fréttastofu.

Hvorki Rósa né Andrés studdu ríkisstjórnarsamstarfið í upphafi, meðal annars vegna Landsréttarmálsins. En telur hún sig geta starfað áfram innan þingflokksins? „Ég er þingmaður VG, er oddviti VG í Suðvesturkjördæmi og verð það áfram. Ég hyggst starfa áfram innan þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, já.“ Andrés Ingi segist sama sinnis í samtali við fréttastofu.

Töldu ríkisstjórnarsamstarfið undir

Svo virðist sem þingmenn Vinstri grænna hafi talið ríkisstjórnarsamstarfið undir við atkvæðagreiðsluna. Þannig sögðu þær Lilja Rafney Magnúsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingkonur VG, að þær væru ósáttar við embættisverk dómsmálaráðherra, en að þær vildu ekki samþykkja vantraust á hana, vegna þess að þá myndi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur falla. „Ef vantrauststillagan verður samþykkt, getur tvennt gerst; annaðhvort það að ráðherrann fari og nýr taki við. Hitt sem gæti gerst væri það að Sjálfstæðisflokkurinn yfirgæfi ríkisstjórnina og þar með væri hún úr sögunni,“ sagði Lilja Rafney á Alþingi í gær.

Undir þetta tók Bjarkey Olsen, þingflokksformaður Vinstri grænna. „Níu þingmenn Vinstri grænna meta það svo að ríkisstjórnarsamstarfið sé undir ef að vantraust verður samþykkt.“

Rósa Björk segir leitt ef ríkisstjórnarsamstarfið stendur eða fellur með þessu máli. „Fyrir mér snerist þetta um vantrauststillögu á dómsmálaráðherra en ekki á ríkisstjórnina alla, og það var mjög skýrt,“ segir Rósa Björk.
 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi